Lásu skilmála í 30 klukkutíma

AFP

Samtals fóru vel yfir 30 klukkustundir í það að lesa upp í heyranda hljóði skilmála sem fylgja nokkrum vinsælustu öppum sem hægt er að hlaða niður á snjallsíma í gjörningi á vegum norsku neytendastofunnar. Fjallað er um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Fram kemur í fréttinni að meðal-Norðmaður sé með 33 öpp í símanum sínum en að sögn norsku neytendastofunnar eru skilmálarnir sem fylgja þeim samanlagt lengri en Nýja testamentið. Gjörningurinn var hugsaður til þess að sýna fram á það.

Stofnunin fékk Norðmenn til þess að lesa skilmálana upphátt á vefsíðu hennar og lauk lestrinum í dag. Tók það vel yfir 30 klukkustundir. Valin voru vinsæl öpp eins og Netflix, YouTube, Facebook, Skype, Instagram og leikurinn Angry Birds.

Haft er eftir Finn Myrstad hjá norsku neytendastofnuninni að fyrirkomulag skilmála sem fylgdu öppum væri í raun út í hött. Umfang þeirra, lengd og flækjustig væri slíkt að það væri hreinlega ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun á grundvelli þeirra.

Stofnunin hefur kallað eftir því að hugbúnaðargeirinn komi sér saman um styttri og skýrari skilmála byggða á staðlaðri uppsetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert