Savchenko látin laus úr rússnesku fangelsi

Herflugmaðurinn Nadiya Savchenko horfir í gegnum glerið á dómsalinn við …
Herflugmaðurinn Nadiya Savchenko horfir í gegnum glerið á dómsalinn við uppkvaðningu 22 ára fangelsisdóms síns. AFP

Yfirvöld í Rússlandi hafa látið úkraínska herflugmanninn Nadiya Savchenko lausa úr fangelsi í skiptum fyrir tvo rússneska hermenn sem voru fangar í Úkraínu að því er greint er frá á fréttavef BBC.  

Ekki hefur enn fengist opinber staðfesting á því að Savchenko hafi verið látin laus, en heimildamenn BBC segja hana hafa verið látna lausa í skiptum fyrir þá Yevgeny Yerofeyev og Alexander Alexandrov.

Rússneskur dómstóll dæmdi Savchenko í 22 ára fangelsi fyrir að morð á tveimur blaðamönnum í austurhluta Úkraínu.  Savchneko, sem hefur staðfastlega neitað sök, hefur orðið að eins konar táknmynd andspyrnuafla gegn Rússum í Úkraínu.

Flogið var með Savchenko frá borginni Rostov-on-Don til Kíev í Úkraínu um borð í flugvél Petro Poroshenkos, forseta Úkraínu. Og þá var farið með þá Yerofeyev og Alexandrov frá Kíev til Moskvu í flugvél í eigu Vladimír Pútíns Rússlandsforseta.

Yfirvöld í Úkraínu hafa sagt mennina tvo tilheyra sérstakri njósnasveit rússneska hersins, en yfirvöld í Rússlandi segja mennina hafa verið í fríi þegar þeir voru teknir höndum í austurhluta Úkraínu.  Yerofeyev og Alexandrov voru í síðasta mánuði dæmdir í 14 ára fangelsi eftir að hafa verið fundnir sekir um að heyja „óvægið stríð“ gegn Úkraínu, fyrir hryðjuverk og fyrir að nota vopn til að hvetja til átaka.

Líkur höfðu verið taldar á fangaskiptum milli ríkjanna um nokkurt skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert