Hart tekist á um vinnumarkaðsbreytingar

Mótmælendur í París í dag.
Mótmælendur í París í dag. AFP

Grímuklædd ungmenni lentu í átökum við óeirðalögreglu í París í dag. Umfangsmikil verkföll voru í landinu í dag og lokaði starfsfólk meðal annars kjarnorkuverum vegna óánægju með fyrirhugaðar breytingar á vinnumarkaðslöggjöf.

Þurfti lögreglan að beita táragasi til að eiga við hóp um 100 mótmælenda sem brutust út úr kröfugöngu og fóru að vinna skemmdarverk á búðargluggum og nærliggjandi bílum, samkvæmt frétt AFP.

Mótmælendur lokuðu í dag fjölda brúa og vega í París. Þá lögðu lestar- og flugumferðarstjórar niður störf í mótmælaskyni. Mótmælendur reyndu einnig að loka olíu- og kjarnorkuverum í Norður-Frakklandi. Jafnvel þótt lögreglan hafi stöðvað þau mótmæli mynduðust langar biðraðir á bensínstöðvum víða um land.

Hafa fulltrúar verkalýðshreyfinga í landinu kallað eftir verkföllum og mótmælum á fyrsta degi Evrópumótsins í knattspyrnu sem hefst þann 10. júní næstkomandi.

Einn maður var fluttur á spítala í sjúkraflugi eftir að hafa ekið mótorhjóli á vegartálma sem mótmælendur höfðu sett upp á vegi á suðurströnd Frakklands. Við Tricastin-kjarnorkuverið í suðaustur Frakklandi kveiktu mótmælendur í bíldekkjum sem leiddi til mikillar reykmyndunar. 

Þær breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni sem mælast verst fyrir hjá mótmælendum eru reglur sem gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að ráða fólk og láta það fara. Manuel Valls, forsætisráðherra landsins, er undir mikilli pressu vegna málsins. Hann segir að ekki komi til greina að afturkalla frumvarpið en þó komi til greina að gera breytingar á því. 

Sósíalistaflokkurinn er ekki á eitt sammála um hverju eigi að breyta. Michel Sapin, fjármálaráðherra landsins úr röðum flokksins, segir að endurskoða þurfti stóran hluta frumvarpsins. Valls tekur ekki undir með flokksfélaga sínum. „Það er ekki hægt að lama landið með þessum hætti og setja fjárhagslega hagsmuni landsins í hættu,“ sagði Valls í ræðu á franska þinginu. Sagði hann leiðtoga mótmælanna hegða sér með óábyrgum hætti.

Bensínstöðvar að tæmast

Aðeins 12 mánuðir eru til forsetakosninga í landinu og er Francois Hollande núverandi forseti afar óvinsæll. Hann er sagður íhuga að gefa áfram kost á sér þrátt fyrir dræmt gengi í skoðanakönnunum. 

Nú síðdegis bárust fregnir af því að áhrifa lokunar orkuvera í landinu vegna mótmælanna var farið að gæta. Þannig eru fjölmargar bensínstöðvar að tæmast. Alls eru fimm af átta olíuvinnsluverum í landinu lokuð eða með takmarkaða framleiðslu í gangi. 

Staðan í raforkuverunum er hins vegar önnur þar sem starfsmenn þeirra kusu gegn verkfallsaðgerðum og eru því verin í fullum gangi. 

Verkföllin eru einnig farin að hafa áhrif á samgöngurnar í landinu. 15% af öllum brottförum af Orly-flugvellinum í París hefur verið aflýst og ein af hverjum fimm hraðlestum eru ekki að störfum. 

<span> </span>

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum séu nauðsynlegar til að skapa ný störf í landinu. Verkalýðshreyfingarnar eru hins vegar ósammála því. Þær halda því fram að breytingarnar gagnist aðeins fyrirtækjunum en ekki starfsmönnum þeirra. Breytingarnar voru samþykktar af frönsku ríkisstjórninni og var þeim komið í gegn án þess að atkvæðagreiðsla færi fram á franska þinginu. 

<span> </span>
Óeirðarlögreglan þurfti að hafa afskipti af um 100 mótmælendum í …
Óeirðarlögreglan þurfti að hafa afskipti af um 100 mótmælendum í París í dag. Mótmælendurnir höfðu eyðilagt búðarglugga og nærstaddar bifreiðar. Hart er tekist á um fyrirhugaðar breytingar á vinnumarkaðslöggjöf landsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert