Kjarnorkustarfsmenn í verkfall

Meðlimir verkalýðsfélagsins CGT loka inngangi iðnaðarsvæðis í Frakklandi.
Meðlimir verkalýðsfélagsins CGT loka inngangi iðnaðarsvæðis í Frakklandi. AFP

Starfsmenn franskra kjarnorkuvera leggja niður störf í dag og taka þannig þátt í miklum verkfallsaðgerðum sem beinast gegn nýsamþykktri vinnulöggjöf. Kjarnorka sér Frökkum fyrir um 75% af raforku þeirra en yfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um hvaða áhrif aðgerðirnar hafa á rafmagnsframboð.

Verkfallsaðgerðir vegna laganna hafa lamað ýmis svið fransks þjóðlífs. Stjórnvöld hafa þurft að ganga á olíuvaraforða vegna verkfalls starfsmanna sex af átta olíuhreinsistöðvum í landinu. Samgönguráðherrann segir að 40% bensínstöðva í kringum París eigi í erfiðleikum með að fá eldsneyti. Bifreiðaeigendur hafa hamstrað bensín og olíu undanfarna daga til að forðast skortinn.

Einnig hafa orðið raskanir á lestarsamgöngum vegna verkfalls lestarstjóra.

Franska ríkisstjórnin vakti mikla reiði verkalýðshreyfingarinnar þegar hún þröngvaði vinnulöggjöfinni í gegnum þingið án atkvæðagreiðslu. Hún segir breytingarnar nauðsynlegar til þess að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að ráða og reka starfsfólk svo draga megi úr atvinnuleysi.

Frétt BBC 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert