Ummæli um „tilfinningasemi“ kvenforseta vekja reiði

Tsai Ing-wen er sökuð um að vera tilfinningasöm vegna þess …
Tsai Ing-wen er sökuð um að vera tilfinningasöm vegna þess að hún er einhleyp kona. AFP

Taívanar hafa brugðist reiðir við aðdróttunum kínversks embættismanns um Tsai Ing-wen, fyrstu konuna til að gegna embætti forseta Taívans. Sá sagði Tsai stunda „tilfinningasöm“ stjórnmál vegna þess að hún er einhleyp kona.

Hvorki Tsai né stjórnarflokkur hennar, DPP, hefur brugðist við ummælunum sem Wang Weixing, hernaðarsérfræðingur og embættismaður kínverskrar stofnunar, sem sér um samskipti kommúnistaríkisins við Taívan, lét hafa eftir sér. Spenna á milli ríkjanna tveggja hefur aukist eftir kjör Tsai sem er andsnúin stjórnvöldum í Beijing.

Aðrir stjórnmálamenn og almenningur hafa hins vegar látið hneykslan sína í ljós á samfélagsmiðlum.

„Svona persónuleg árás er gríðarlega óviðeigandi. Þetta er mismunun á grundvelli kynferðis og við erum algerlega á móti slíkum ummælum,“ segir Wang Yu-min, þingmaður KMT-flokksins sem er hliðhollur kínverskur stjórnvöldum.

Í greiningu sem Wang skrifaði um forsetann sagði hann að stefna hennar mótaðist af stöðu hennar sem einstæðs kvenkyns stjórnmálamanns.

„Hún er gjarnan tilfinningasöm, persónuleg og öfgafull í pólitískum stíl sínum og stefnumótun. Hvað pólitískar brellur varðar hugsar hún minna um áætlanir en meira um taktísk smáatriði. Skammtímamarkmið skipta öllu en minna tillit er tekið til langtímamarkmiða,“ skrifaði Wang.

Taívan hefur haft sjálfsstjórn frá því að eyríkið sagði skilið við Kína eftir borgarastríð árið 1949. Landið hefur þó aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði og Kínverjar líta enn á eyjuna sem hluta af Kína. Stjórnvöld í Beijing hafa varað Tsai við því að reyna að lýsa yfir sjálfstæði Taívans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert