Yfirgaf eiginmanninn á tímum fasismans

Emma Morano er talin vera elsta núlifandi manneskja heims og …
Emma Morano er talin vera elsta núlifandi manneskja heims og eina núlifandi manneskjan sem fæddist á 19. öld. AFP

„Ég hef það fínt, á 116. ári,“ segir Emma Morano sem búsett er í bænum Verbaniu á Norður-Ítalíu. Bærinn er í fjalllendi með útsýni yfir Lago Maggiore. Morano býr þar í eins herbergis íbúð og segist sjaldan eða aldrei yfirgefa heimilið lengur sökum aldurs. Hún er talin elsta núlifandi manneskja heims og sú eina sem hefur lifað á 19., 20., og 21. öldinni.

„Ég lauk námi á sínum tíma og fór svo að vinna. Síðan söng ég mikið. Ég var með undurfagra rödd,“ segir Morano í samtali við fréttamann AP sem heimsótti hana nýverið.

Fréttastofan ræddi einnig við lækni hennar til 23ja ára, Carlo Bava. Það var hann sem tilkynnti fjölmiðlum um það fyrr í mánuðinum þegar Susannah Mushatt Jones lést, að Morano væri sennilega elsta núlifandi manneskjan í heiminum. „Hún var afskaplega hamingjusöm. Hún var stolt og sátt,“ segir Bava í viðtali.

Hann segist hafa gefið henni blómvönd í tilefni tíðindanna. Hvað heilsu Morano varðar segir læknirinn að hún hafi aldrei haft neitt sérstaklega heilbrigt mataræði. Að mestu leyti hafi mataræði hennar samanstaðið af dýrapróteinríkri fæðu auk þess sem hún borðaði talsvert af banönum og vínberjum. Borðaði hún tvö hrá egg og 100 grömm af hráu kjöti á dag samkvæmt læknisráði vegna járnskorts sem hún var greind með fyrir nokkrum árum. Uppáhaldsmatinn segir hún vera eplamauk sem frænkur hennar búa til.

Langlífið ættgengt

Vísindamenn á Ítalíu hafa lengi rannsakað langlífi ákveðins hóps við Miðjarðarhafsstrendur en þar hafa á undanförnum árum komið upp mörg tilfelli af langlífi, fólki sem verður meira en 105 ára gamalt. Á meðal vísindamannanna eru genasérfræðingar enda er talið að langlífi sé ættgengt.

Bava segist sannfærður um að genin hennar eigi stóran þátt í langlífi hennar. Ævi Morano hafi verið erfið og ekkert í hegðun hennar sem bendir til þess að hún myndi lifa svona lengi. Þá er hraustleiki hennar athyglisverður. 

Morano hefur greint frá því að eiginmaður hennar til margra ára hafi beitt hana heimilisofbeldi. Þá missti hún sex mánaða son sinn í vöggudauða. „Hún yfirgaf eiginmann sinn á þeim tíma þegar fasistarnir voru enn við völd, þegar konur voru undirgefnar körlum. Hún var alltaf mjög ákveðin,“ segir Bava.

Hún starfaði lengi í verksmiðju áður en hún fór að starfa á hóteli. Þar vann hún langt fram yfir eftirlaunaaldur. 

Söngurinn hefur alltaf verið aðaláhugamál Morano. „Þegar ég söng í íbúðinni minni stönsuðu karlmenn á götunni og fóru að hlusta. Síðan þurftu þeir að hlaupa til að drífa sig í vinnuna,“ segir Morano sem söng stutt lag fyrir fréttamenn AP. Fyrir valinu varð ítalska ástarlagið „Parlami d'amore Mariu.“

Sjá frétt CBS-news.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert