Bandaríkjaforseti í Hiroshima

Bandaríski og japanski fáninn blakta saman við minnisvarða um kjarnorkusprenginguna …
Bandaríski og japanski fáninn blakta saman við minnisvarða um kjarnorkusprenginguna í Hiroshima. AFP

Barack Obama varð í dag fyrsti forseti Bandaríkjanna til að heimsækja japönsku borgina Hiroshima eftir að Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á hana í síðari heimsstyrjöldinni. Hann segir heimsóknina til marks um hvernig hægt sé að brúa jafnvel sárustu gjár.

Ekki stendur til að Obama biðji íbúa borginnar afsökunar fyrir hönd Bandaríkjanna en hann tekur þátt í athöfn til þess að heiðra alla þá sem létust í stríðinu. Kjarnorkusprengingin í Hiroshima 6. ágúst árið 1945 er talin hafa grandað að minnsta kosti 140.000 manns. Tveimur dögum síðar vörpuðu Bandaríkjamenn annarri sprengju á Nagasaki þar sem 74.000 hið minnsta létust.

Obama mun leggja blómsveig við minnisvarða um þá sem létust í Hiroshima ásamt eftirlifendum sprengingarinnar.

Áður hefur Jimmy Carter heimsótt Hiroshima en það var eftir að hann hafði látið af embætti forseta. Sendiherra Bandaríkjanna var viðstaddur minningarathöfn í borginni í fyrsta skipti árið 2010.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert