Ætla að trufla EM í knattspyrnu

AFP

Frönsk verkalýðssamtök hafa áform um að trufla almenningssamgöngur og neyðarþjónustu í næsta mánuði, á meðan Evrópukeppnin í knattspyrnu stendur yfir í landinu.

Samtökin, Force Ouvriere, tilkynntu um áform sín á föstudaginn.

Mikið hefur verið um mótmæli og verkfallsaðgerðir víða um Frakkland undanfarna daga en mótmælin eru tilkomin vegna breytinga franskra stjórnvalda á vinnumarkaðslöggjöfinni. Verkalýðssamtök telja þær vanhugsaðar. Þær þrengi að launþegum og skerði réttindi þeirra.

Patrice Clos, sem stýrir samgöngusviði samtakanna, segir að ákveðið hafi verið að boða til verkfalls á leikdögum í þeim borgum þar sem leikið verður.

„Það var ákveðið að í ljósi þess að lögin snerta hagkerfi verkamanna myndum við lama hagkerfi Evrópu þar til lögin verða dregin til baka,” sagði hann.

Í frétt Sky News segir að verkalýðssamtökin séu þekkt fyrir að grípa til harkalegra aðgerða. EM hefst í Frakklandi 10. júní næstkomandi en þegar hefur verið boðað til fjöldamótmæla um allt land 14. júní.

Verkfallsaðgerðirnar gætu haft áhrif á vöruflutninga, almenningssamgöngur, neyðarþjónustu og sorphirðu.

Franco­is Hollande, for­seti Frakk­lands, hefur sagt að hann muni halda áfram að þrýsta á um óvin­sæl­ar breyt­ing­ar á vinnu­lög­gjöf lands­ins.     

„Ég ætla að halda áfram, af því að ég tel að þess­ar breyt­ing­ar séu af hinu góða,“ sagði Hollande við frétta­menn á fundi G7-ríkj­anna í Jap­an. Hann bætti við að frönsk stjórn­völd muni tryggja ferðaf­relsi íbúa, en eldsneyt­is­skort­ur á bens­ín­stöðvum vegna verkfallsaðgerða, sem og verk­föll lest­ar­starfs­manna, hafa haft áhrif á mögu­leika manna til að kom­ast ferða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert