Drengur féll ofan í górillugryfju

AFP

Starfsmenn dýragarðsins í borginni Cincinnati í Ohio-ríki í Bandaríkjunum skutu til bana górillu í gær eftir að þriggja ára gamall drengur féll ofan í gryfjuna til hennar. Drengurinn skreið í gegnum girðingu utan um gryfjuna og féll ofan í hana.

Górillan, 17 ára gamalt karldýr, tók drenginn upp í kjölfarið að sögn starfsmanns dýragarðsins. Haft er eftir sjónarvottum í frétt AFP að górillan hafi dregið drenginn um gryfjuna. Starfsmenn garðsins skutu górilluna til bana um 10 mínútum eftir að drengurinn féll ofan í gryfjuna.

Drengurinn var fluttur á sjúkrahús en meiðsl hans eru ekki talin lífshættuleg. Tekin var ákvörðun um að skjóta górilluna til bana í stað þess að svæfa hana þar sem svæfingin hefði ekki virkað samstundis að sögn starfsmannsins. Líf drengsins hafi verið talið í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert