NBA-leikmaður skotinn til bana

Bryce Dejean-Jones.
Bryce Dejean-Jones.

Bryce Dejean-Jones, leikmaður New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfubolta, var skotinn til bana í Dallas í nótt, að sögn bandarískra yfirvalda, eftir að hann braust inn í íbúð í borginni.

Dejean-Jones, sem er 23 ára skotbakvörður, sparkaði upp hurðinni og vakti íbúa íbúðarinnar, að því er fram kom í tilkynningu frá lögreglu, en var umsvifalaust skotinn til bana þegar hann gekk inn í svefnherbergi íbúðarinnar. 

Hann lést af sárum sínum á spítala. Lögreglan rannsakar nú skotárásina.

Framkvæmdastjóri húsfélagsins sagði í tölvupósti til íbúa í fjölbýlishúsinu að Dejean-Jones hafi ætlað að brjótast inn í íbúð „fyrrum kunningja“ síns en að hann hafi óvart brotist inn í ranga íbúð. 

Samkvæmt heimildum ESPN var Dejean-Jones í Dallas til þess að fagna afmæli dóttur sinnar. Á hann að hafa lent í útistöðum við barnsmóður sína áður en árásin átti sér stað.

Þá hefur fréttastofa Dallas, ABC, heimildir fyrir því að kærasta Dejean-Jones hafi búið í annarri íbúð í fjölbýlishúsinu.

Scott Nicholas, umboðsmaður hans, staðfesti við ESPN að Dejean-Jones hafi fengið skot í kviðinn og látist af völdum skotsáranna.

Hann spilaði sinn fyrsta NBA-leik í janúarmánuði og gerði í kjölfarið samning til nokkurra ára við New Orleans. Hann skoraði að meðaltali um 5,6 stig og tók 3,4 fráköst í fjórtán leikjum á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert