Getnaðarvarnir ekki fyrir múslima

Recep Tayyip Erdogan.
Recep Tayyip Erdogan. AFP

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, sagði í dag að það hentaði ekki fjölskyldum múslima að skipuleggja stærð sína eða nota getnaðarvarnir. Sagði hann að það væri á ábyrgð tyrkneskra kvenna að sjá til þess að íbúum landsins fjölgaði áfram.

„Ég segi það hreint út. Við þurfum að fjölga afkomendum okkar,“ sagði forsetinn í ræðu í borginni Istanbul samkvæmt frétt AFP. „Fólk talar um getnaðarvarnir, um að skipuleggja stærð fjölskyldna sinna. Enginn múslimi getur skilið eða samþykkt það.“ Sjálfur eiga Erdogan og eiginkona hans Emine tvo syni og tvær dætur. Dætur hans eru uppkomnar.

Forsetinn hefur oft valdið reiði í röðum femínista og annars baráttufólks fyrir kynjajafnrétti með tali sínu um kynlíf og fjölskyldumál. Á konudaginn fyrr á árinu sagði hann í ræðu að hann teldi að konur væru fyrst og fremst mæður. Árið 2014 sagði hann notkun getnaðarvarna vera landráð sem gæti leitt til þess að heil kynslóð yrði að engu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert