„Krókódíll náði mér!“

Krókódíll læsti skoltum sínum um konuna sem hvarf í nóttina.
Krókódíll læsti skoltum sínum um konuna sem hvarf í nóttina. AFP

Óttast er að kona á fimmtugsaldri sé látin eftir að krókódíll reif hana með sér þegar hún var að synda við strönd í norðurhluta Ástralíu með vinkonu sinni. Hún er sögð hafa hrópað „Krókódíll náði mér!“ áður en hún hvarf.

Konan var að synda við Thornton-ströndina í Queensland-ríki í gærkvöldi þegar vinkonurnar ákváðu að fá sér sundsprett í grunnum sjónum sem er þekkt búsvæði skriðdýra. Þær eru báðar frá Ástralíu en voru á ferðalagi á svæðinu.

Vinkonan reyndi í örvæntingu að draga konuna upp úr sjónum en allt kom fyrir ekki. Hún náði að gera viðvart og hófst þá leit að konunni. Þyrla með hitamyndavél var meðal annars kölluð út en hún fann hvorki tangur né tetur af konunni. Fulltrúi lögreglunnar á svæðinu segir að vinkonunni sé afar brugðið en hún virðist hafa sloppið með skrámur.

Í áströlskum fjölmiðlum kemur fram að ströndin sé nærri á þar sem krókódílaskoðunarferðir eru farnar. Mikið sé af viðvörunarskiltum á svæðinu. Krókódílar eru algengir á hitabeltissvæðum norðanverðrar Ástralíu. Að meðaltali drepa þeir tvær manneskjur á ári, að því er segir í frétt AFP-fréttaveitunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert