Náttúruundur í lífsháska

Hátt á annað þúsund fisktegundir hafa fundist í Kóralrifinu mikla …
Hátt á annað þúsund fisktegundir hafa fundist í Kóralrifinu mikla en þær hafa þróast til að lifa þar. Deyi kóralarnir eru þessar tegundir í útrýmingarhættu. AFP

Kóralrifið mikla er líffræðilega fjölbreyttasta svæði jarðar með þúsundum dýrategunda sem hafa þróast til að lifa í því. Hrönn Egilsdóttir, sjávarlíffræðingur og doktorsnemi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, segir vísindamenn byrjaða að ræða af alvöru að kóralarnir gætu drepist alveg á næstu áratugum vegna hnattrænnar hlýnunar.

Gríðarlegt álag hefur verið á Kóralrifinu mikla undan ströndum Ástralíu undanfarna mánuði vegna óvenjumikilla hlýinda í hafinu af völdum El niño-veðurfyrirbrigðisins. Vísindamenn þar í landi segja nú að allt að 35% kórala í sumum hlutum rifsins séu dauðir eða deyjandi.

Rifið er eitt af helstu kennileitum og náttúruundrum jarðarinnar en það er svo stórt að það sést úr geimnum. Um þrjú þúsund rif eru á svæðinu og þekja kóralarnir um 30.000 ferkílómetra. Allur garðurinn er um þrisvar til fjórum sinnum stærri en Ísland og nær yfir um 354.000 ferkílómetra svæði. 

Loftslagsbreytingar ýkja öfgarnar

El niño er náttúruleg sveifla sem verður með nokkurra ára millibili en vegna þeirrar hnattrænu hlýnunar sem menn valda nú á jörðinni með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum hafa hitastigsöfgarnar sem veðurfyrirbrigðið hefur í för með sér ágerst.

„Það sem gerist við loftslagsbreytingar er að hlýnunin sem fylgir El niño virðist verða alltaf meiri og meiri. Þess vegna eru þessir El niño-viðburðir að verða alvarlegri því það fylgja þeim öfgafyllri gildi. Það er vandinn. Þessi fölnun núna er út af þessum El niño-viðburði en alvarleiki hans er þeim mun meiri út af þessum gríðarlega hita,“ segir Hrönn.

Kóralrifið mikla þekur víðáttumikið svæði austur af ströndum Ástralíu.
Kóralrifið mikla þekur víðáttumikið svæði austur af ströndum Ástralíu. AFP

Nánu sambýli stíað í sundur 

Áhrifin á Kóralrifið mikla eru afdrifarík. Kóralarnir eru afar viðkvæmir fyrir langvarandi hlýindum eins og hafa verið við lýði í hafinu framan af ári. Ástæðan er sérstakt sambýli kóralanna og þörunga sem gefa þeim lit sinn.

Kóralarnir hafa þróast þannig að þeir eru aðallega virkir á nóttunni og borða svif. Sambýlisþörungarnir vinna hins vegar orku úr sólarljósi á daginn. Þannig fær kóralinn orku yfir daginn en þörungurinn skjól. Þegar álag verður á kóralana vegna viðvarandi hlýnunar losa þeir sig hins vegar við þörungana og þá fölna þeir.

„Þeir eru háðir því að hafa þennan þörung til að búa til orku af því að hafa þróast í þessu sambýli. Það má segja að þeir deyi ekki um leið. Þeir losa sig við þennan sambýlisþörung en ef þeir hafa þá ekki í lengri tíma fá þeir ekki nógu mikla orku til að viðhalda sjálfum sér. Þá er náttúrulega hætta á að þeir deyi sem virðist vera farið að gerast núna,“ segir Hrönn.

Í mikilli útrýmingarhættu

Síðustu ár hafa verið þau hlýjustu frá því að mælingar hófust og ekkert bendir til annars en að hnattræn hlýnun haldi áfram hvað sem Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum líður vegna þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem þegar hefur átt sér stað og er fyrirsjáanleg. Höfin hafa gleypt þorra þeirrar hlýnunar sem hefur orðið undanfarna öld.

Einn helsti sérfræðingur heims í kóralrifinu, Ove Hoegh-Guldberg, prófessor við Queensland-háskóla í Ástralíu, hefur spáð því að Kóralrifið mikla gæti drepist í heild sinni fyrir árið 2040 vegna hnattrænnar hlýnunar og fleiri álagsvalda eins og súrnunar sjávar, næringarefnaauðgunar af landi og fleiri þátta.

Hrönn segir þetta vera eitthvað sem vísindamenn séu farnir að tala um af alvöru og svo virðist sem að raunveruleg hætta sé á að Kóralrifið glatist.

Frétt mbl.is: Þriðjungur Kóralrifsins mikla dauður eða deyjandi

Mikið er undir því gríðarlega fjölbreytt dýralíf á allt sitt undir rifinu. Hrönn nefnir að fyrir utan sex hundruð mismunandi tegundir kórala hafi um 1.600 fisktegundir fundist þar og 130 tegundir hákarla og brjóskfiska.

„Þær eru vissulega í mikilli útrýmingarhættu, bæði kóralarnir og dýrin, en það er mjög erfitt að segja til um hvernig þetta mun þróast og hvaða tegundir lifa af. Fiskarnir eru náttúrulega þróaðir til að éta og lifa á kóralrifi,“ segir Hrönn.

Fiskarnir gegna einnig hlutverki í að viðhalda kórölunum því þeir halda aftur af öðrum þörungagróðri í hafinu. Missi þeir búsvæði sín og hverfi gæti ofvöxtur orðið í þörungum við yfirborð sjávarins sem takmarkar sólarljós sem berst niður til þeirra. Þá drepast kóralarnir alveg.

Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands.
Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Lítill skilningur hjá stjórnvöldum

Þrátt fyrir að reiknað hafi verið út að Kóralrifið mikla sé 15–20 milljarða ástralskra dollara virði á ári og skapi 64 þúsund störf í formi fiskveiða og ferðamannaiðnaðar í Ástralíu segir Hrönn að þarlend stjórnvöld hafi ekki mikinn skilning á umhverfismálum.

„Því miður eru áströlsk stjórnvöld núna mjög óhagstæð þegar kemur að umhverfisvernd,“ segir hún.

Frétt mbl.is: Ástralar létu ritskoða SÞ-skýrslu

Sagt var frá því í síðustu viku að áströlsk stjórnvöld hefðu beitt Sameinuðu þjóðirnar þrýstingi um að fjarlægja allar vísanir til Ástralíu í skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á staði á heimsminjaskrá, þar á meðal Kóralrifið mikla.

Áður höfðu þau fengið því framgegnt að rifið væri ekki sett á lista yfir heimsminjar í hættu þrátt fyrir þá ógn sem því stafar af hlýnun hafsins. Fölnunarviðburðurinn nú er sá þriðji stjóri á undanförnum átján árum að sögn vísindamanna. Sá sem nú stendur yfir er talinn sá langalvarlegasti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert