Fundu 14.000 ára mammút

Luis Cordoba við höfuðkúpu loðfílsins.
Luis Cordoba við höfuðkúpu loðfílsins. AFP

Sérfræðingar í Mexíkó segjast vera að ljúka störfum við uppgröft á steingerðum beinum loðfíls eða mammúts í nágrenni Mexíkóborgar.

Beinin fundust við þorpið Tultepec þegar verið var að grafa fyrir holræsi. Talið er að beinin séu um 14 þúsund ára gömul en þau fundust ekki öll á sama stað heldur nokkuð dreift. Það þykir benda til að dýrið hafi verið skorið í sundur af mönnum sem svo hafa nýtt feldinn og kjötið. Áþekk bein hafa fundist áður á svæðinu þar sem áður var grunnt vatn sem þungir mammútar höfðu fest sig í.

Setlög merkt með ártölum.
Setlög merkt með ártölum. AFP

Fornleifafræðingurinn Luis Cordoba tjáði AFP að jarðneskar leifar yfir 50 loðfíla hefðu fundist á svæðinu í kringum höfuðborgina. Sagði hann Tultepec-loðfílinn hafa fundist tveimur metrum undir götu í þorpinu. Dýrið hafi verið milli 20 og 25 ára gamalt þegar það dó og beinagrind þess var mjög heilleg, til að mynda voru skögultennur fílsins enn fastar við hauskúpu hans. Vísindamenn vonast til að geta sett steingervingana saman og sýnt þá almenningi.

Loðfílar hafa fundist víða í Mexíkó, á svæðum nálægt vötnum þar sem hjarðir komu saman. Þessi undirtegund er þekkt sem kólumbíski mammúturinn en sú hafðist við í Bandaríkjunum og Mið-Ameríku. Bein hennar hafa fundist í Texas og jafnvel í Kaliforníu.

Hér má sjá dýpið sem beinin fundust á.
Hér má sjá dýpið sem beinin fundust á. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert