Clinton með 51% fylgi ef kosið yrði í dag

Ef forsetakosningar Bandaríkjanna væru haldnar í dag myndu 51% kjósenda …
Ef forsetakosningar Bandaríkjanna væru haldnar í dag myndu 51% kjósenda styðja Clinton og 39% styðja Trump, samkvæmt könnuninni. AFP

Tvær skoðanakannanir sem birtar voru í dag sýndu fram á aukið fylgi kjósenda við Hillary Clinton í bandarísku forsetakosningunum. Síðastliðinn mánuður hefur verið róstusamur hjá Donald Trump sem hefur ekki náð að öðlast traust kjósenda.

Skoðanakönnun sem framkvæmd var af Washington Post-ABC sýndi fram á að Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hefði 12% meira fylgi en Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins. Þetta er mesti munur sem mælst hefur á milli frambjóðendanna síðan í haust. Undanfarna mánuði hafa skoðanakannanir sýnt fram á að fylgi frambjóðendanna sé fremur jafnt og því er þetta mikil breyting. 

Ef forsetakosningar Bandaríkjanna væru haldnar í dag myndu 51% kjósenda styðja Clinton og 39% styðja Trump, samkvæmt könnuninni. Skoðanakönnun Wall Street Journal/NBC sýndi þó minni mun á frambjóðendunum, Clinton með 46% fylgi og Trump með 41%.

Þessar skoðanakannanir koma fram á erfiðum tímapunkti fyrir Trump sem er nýbúinn að reka kosningastjórann sinn og hefur verið gagnrýndur fyrir slæmt skipulag í kosningabaráttu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert