Bretar sækja í írsk vegabréf

Írska vegabréfið virðist heilla íbúa Bretlands þessa dagana eftir að …
Írska vegabréfið virðist heilla íbúa Bretlands þessa dagana eftir að íbúar landsins ákváðu að þeir vildu draga sig úr Evrópusambandinu. AFP

Ákvörðun þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um að segja skilið við Evrópusambandið hefur valdið því að íbúar Norður-Írlands hafa í auknum mæli sótt um írsk vegabréf. Talskona breska póstsins, sem sér um vegabréfsumsóknir, segir að óvenjulega mikil ásókn hafi verið í írsk vegabréf frá Norður-Írlandi. Nákvæmar tölur vegna þessa liggja þó ekki fyrir.

Nú þegar hafa yfirvöld í Belfast, höfuðborg Norður-Írlands, klárað öll vegabréf og eru að bíða eftir neyðarsendingu sem áformað er að komi á morgun.

Allir þeir sem fæddust á írsku eyjunni, sem inniheldur bæði ríkið Írland og Norður-Írland, fyrir 1. janúar árið 2005 hafa rétt til þess að gerast írskir ríkisborgarar. Þá geta þeir sem eiga foreldra sem fæddust á Írlandi einnig fengið írskt vegabréf, sem og í þeim tilfellum þar sem foreldrar viðkomandi voru írskir ríkisborgarar við fæðingu.

Samtals voru um 430 þúsund írskir einstaklingar í Bretlandi samkvæmt manntali árið 2011. Þá var fjórðungur íbúa Bretlands með ættartengsl við Írland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert