Vængurinn logaði við lendingu

Sviðinn vængur og hreyfill Boeing 777-300ER Singapore Airlines á flugbrautinni …
Sviðinn vængur og hreyfill Boeing 777-300ER Singapore Airlines á flugbrautinni á Changi-flugvelli. AFP

Engan sakaði líkamlega þegar eldur kviknaði í væng flugvélar Singapore Airlines skömmu eftir að hún lenti í Singapúr í gærkvöldi. Vélinni hafði verið snúið við vegna vélarvandræða þegar hún hafði flogið í um tvær klukkustundir. Eldurinn blossaði upp í öðrum hreyflinum á flugbrautinni.

Farþegar í flugvélinni, sem var á leið til Mílanó á Ítalíu, klöppuðu þegar hún virtist hafa lent mjúklega eftir vandræðin á Changi-flugvelli. Svipstundu síðar stóðu hægri hreyfillinn og vængurinn í ljósum logum. Nokkrar mínútur tók fyrir slökkviliðsmenn að komast að vélinni og dæla yfir hana vatni og froðu.

Vélin er af gerðinni Boeing 777-300ER og voru 222 farþegar um borð auk nítján manna áhafnar. Í yfirlýsingu flugfélagsins segir að eldurinn hafi komið upp eftir að vélarolíuviðvörun birtist. Farþegar hafi getað yfirgefið vélina með stigum og þeir fluttir með rútum að flugstöðinni. Félagið hyggist vinna með yfirvöldum að rannsókn óhappsins.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert