Cameron fundar með leiðtogum ESB

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hittir leiðtoga Evrópusambandsins í fyrsta skipti í dag eftir að Bretar kusu að ganga úr því í síðustu viku og sérstök umræða fer fram í Evrópuþinginu. Þingmenn Verkamannaflokksins ætla að kjósa um vantrauststillögu á Jeremy Corbyn.

Cameron hittir Donald Tusk, forseta Evrópuráðsins, og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Brussel í dag. Í kvöld verður hann svo viðstaddur vinnukvöldverð leiðtoga aðildarríkjanna þar sem hann hyggst skýra pólitíska landslagið í Bretlandi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, þýðingu niðurstöðunnar og hvað gerist næst.

Leiðtogar Þýskalands, Frakklands og Ítalíu sögðu í gær að engar formlegar eða óformlegar viðræður gætu farið fram um úrgöngu Breta á þessu stigi.

Osborne gefur ekki kost á sér

Eftirskjálftarnir eftir Brexit halda áfram í stjórnmálalífi Bretlands. Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur legið undir mikilli gagnrýni flokksmanna sinna vegna framgöngunnar í kosningabaráttunni. Þingmenn flokksins ætla að greiða atkvæði um vantrauststillögu á hann í dag.

Fjármálaráðherrann George Osborne segir nú að hann sé ekki maðurinn til að taka við af Cameron þegar hann segir af sér í haust. Hann hafi barist hart fyrir áframhaldandi veru í ESB. Þó að hann virði niðurstöðuna segist hann ekki vera rétti maðurinn til að koma á einingu innan Íhaldsflokksins.

Cameron sagði í gær að sérstök nefnd yrði sett á fót til að undirbúa úrgöngu Breta úr sambandinu.

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert