28 sagðir látnir í Istanbúl

Tyrkneskir fjölmiðlar greindu fyrir skömmu frá tveimur sprengingum á Ataturk-flugvellinum í Istanbúl í Tyrklandi. Talið er að tveir menn hafi sprengt sjálfa sig í loft upp, en þær fregnir eru þó enn óstaðfestar.

Þá greindu tyrkneskir fjölmiðlar einnig frá því að skothvellir hafi heyrst á flugvellinum skömmu eftir sprengingarnar.

Talið er að mennirnir tveir hafa hafið skothríð að lögreglu en lögreglan svarað í sömu mynt. Skotbardaginn hafi endað með þeim hætti að mennirnir sprengdu sig í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum.

CNN hefur rætt við sjónarvotta sem segjast hafa séð leigubíla aka á brott með slasaða. Þá hefur CNN birt sjónvarpsmyndir af sjúkrabílum og slökkiliðsbílum yfirgefa flugstöðina með sírenur í gangi.

Samkvæmt upplýsingum frá Reuters eru um 40 taldir slasaðir eftir sprengingarnar. Sami fjölmiðill hefur eftir dómsmálaráðherra landsins að 10 manns hafi látið lífið í árásinni.

Samkvæmt frétt BBC voru árásarmennirnir sem hófu skotárásina staddir á bílastæði við flugvöllinn. 

Í desember síðastliðnum var gerð árás á Sabiha Gokcen-flugvöllinn í Istanbul. Einn lést í þeirri árás. 

Talið er að sprengingarnar hafi orðið í millilandadeild flugvallarins. 

Uppfært klukkan 21:17

Fjölmiðlar í Tyrklandi fullyrða nú að um sjálfsmorðsárás hafi verið að ræða. Að minnsta kosti 28 eru sagðir látnir og 20 eru særðir. 

Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands, segir að tveir ódæðismenn hafi verið að verki hið minnsta. Annar þeirra í innanríkisflugstöðinni og hinn í alþjóðaflugstöðinni. 

„Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið hóf einn hryðjuverkamaður skotárás með Kalashnikov-riffli við brottfararsvæðið fyrir alþjóðaflug áður en hann sprengdi sjálfan sig í loft upp,“ segir Bozdag í samtali við fjölmiðla.

Lögreglan lokar af svæðinu í kringum Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl eftir …
Lögreglan lokar af svæðinu í kringum Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl eftir árásirnar í kvöld. AFP
Ataturk-flugvöllurinn í Istanbul þar sem sprengingarnar urðu í dag.
Ataturk-flugvöllurinn í Istanbul þar sem sprengingarnar urðu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert