Leiðtogarnir hittast án Cameron

Sæti Bretlands verður autt þegar leiðtogar Evrópusambandsríkja funda í Brussel í dag um framtíð sambandsins í kjölfar Brexit. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að ríki sambandsins vilji halda eins nánu sambandi við Bretland og hægt er eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins í Brussel segir að búast megi við því að evrópsku leiðtogarnir kalli eftir einingu og umbótum. Gera þurfi loforð fljótt að veruleika því þjóðaratkvæðagreiðslan um úrgöngu Breta hafi hrikt í stoðum sambandsins.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í gær að Evrópusambandið yrði að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar en ítrekaði það sem kollegar hennar hafa sagt um að Bretar ættu að gera áætlanir um að yfirgefa sambandið sem fyrst.

Þá hafa leiðtogarnir staðið fastir á því að engar samningaviðræður geti farið fram við Breta fyrr en þeir hafa virkjað 50. grein Lissabonsáttmálans. Bretar geti heldur ekki sérvalið það sem þeim líkar við ESB. Merkel sagði þannig að Bretar yrðu að samþykkja frjálsa för fólks um svæðið ef þeir vilja hafa aðgang að sameiginlegum markaði þess.

Cameron, sem sat sinn síðasta leiðtogafund ESB í gær þar sem hann stígur til hliðar í haust, sagði að viðræður hans við evrópsk starfssystkini hafi verið yfirvegaðar, uppbyggilegar og ákveðnar.

Frétt BBC

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur setið sinn síðasta leiðtogafund ESB-ríkja.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur setið sinn síðasta leiðtogafund ESB-ríkja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert