NATO-ríki standa með Tyrkjum

Ummerki eftir byssukúlu á glervegg á Ataturk-flugvelli í morgun.
Ummerki eftir byssukúlu á glervegg á Ataturk-flugvelli í morgun. AFP

Hluti Ataturk-flugvallar var opnaður í morgun eftir hryðjuverkaárásina þar í gærkvöldi. Að minnsta kosti 36 manns liggja í valnum og á annað hundrað eru særðir eftir árásina. Framkvæmdastjóri NATO segir aðildarríki sambandsins standa með Tyrkjum gegn hryðjuverkaógninni.

Um þriðjungi áætlaðra flugferða á flugvellinum í Istanbúl var aflýst í morgun og fjölda annarra seinkað, að sögn AP-fréttaveitunnar. Starfsmenn byrjuðu að meta skemmdirnar á flugstöðvarbyggingum þegar birti af morgni eftir blóðbaðið sem þrír sjálfsmorðssprengjumenn stóðu fyrir í gærkvöldi.

Tyrknesk yfirvöld leiða líkur að því að þremenningarnir hafi verið liðsmenn Ríkis íslams. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), fordæmir árásina sem hann segir hryllilega.

„Það er engin réttlæting fyrir hryðjuverkum. Bandamenn NATO standa með Tyrklandi, sameinaðir í staðfestu okkar í því að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi í öllum sínum birtingarmyndum,“ segir Stoltenberg.

Í sama streng hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum og ýmsum Evrópuríkjum tekið í kjölfar árásarinnar.

Fréttaritari BBC á flugvellinum segir að hann hafi lengi verið talinn berskjaldaður fyrir árásum. Röntgenskannar eru við inngang flugstöðvarinnar en öryggiseftirliti með bílaumferð sé ábótavant.

Binali Yildrim, forsætisráðherra Tyrklands, segir að árásarmennirnir þrír hafi komið á flugvöllinn í leigubíl. Þeir eru sagðir hafa hafið skothríð fyrir utan og inni í flugstöðvarbyggingunni en þeir sprengdu sig síðan í loft upp þegar lögreglumenn veittu þeim mótspyrnu.

Frétt BBC

Fréttir mbl.is:

Telja Ríki íslams bera ábyrgð

Þrjár sjálfsmorðssprengjur sprungu

28 sagðir látnir í Istanbúl

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert