Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, segir að breskir stjórnmálamenn verði að sætta sig við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 23. júní, þar sem Bretar samþykktu að segja skilið við Evrópusambandið.
„Ég get ekki ímyndað mér að breskir stjórnmálamenn muni fara gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar,“ sagði hann í sjónvarpsviðtali í Tékklandi í morgun, að því er fram kemur í frétt Reuters.
Slóvakía tók við forsæti Evrópusambandsins af Hollandi um mánaðamótin.
Fico bætti því við að ákvörðun Breta um að yfirgefa sambandið ætti ekki að hafa nein veruleg áhrif á hagkerfi Slóvakíu. „Við erum mjög ánægðir og höfum ekki miklar áhyggjur,“ sagði hann. „Útganga Breta ætti ekki að hafa mikil áhrif á Slóvakíu.“