Sagði Hillary Clinton vera lygara

Donald Trump forsetaframbjóðandi.
Donald Trump forsetaframbjóðandi. AFP

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump sagði andstæðing sinn Hillary Clinton vera lygara sem hefði misnotað „spillt“ kerfi á kosningafundi í ríkinu Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur mælt með því að Clinton verði ekki látin svara til saka vegna notkunar hennar á persónulegu netfangi sínu í opinberu starfi.

„Kerfið okkar er spillt,“ sagði Trump, nokkrum klukkustundum eftir að Clinton kom fram á kosningafundi í ríkinu ásamt Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.

„Hún hlær að heimskunni í kerfinu okkar.“

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

James Comey, stjórnandi FBI, sagði í gær að Clinton og aðstoðarfólk hennar hefðu verið „mjög kærulaus“ þegar sendar voru leynilegar upplýsingar í gegnum persónulegt netfang Clinton.

„Allir héldu að hún væri sek, miðað við það sem hefur komið fram,“ sagði Trump. „Hún var sek og svo var ákveðið að kæra hana ekki. Það er ótrúlegt.“

Hann bætti við að bandarískur almenningur hafi verið í hættu vegna Clinton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert