Segja Bandaríkin hafa lýst yfir stríði

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru öskuill yfir viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gegn Kim Jong-Un, leiðtoga N-Kóreu. Í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu sendir frá sér í morgun segir ríkið að með viðskiptaþvingununum séu Bandaríkin búin að lýsa yfir stríði gegn Norður-Kóreu.

Bandaríkin ákváðu í gær að setja Kim á svartan lista landsins og beita hann viðskiptaþvingunum vegna mannréttindabrotanna sem framin eru í Norður-Kóreu. Í yfirlýsingu Norður-Kóreumanna er ákvörðun Bandaríkjanna sögð fjandsamleg og heita stjórnvöld því að brugðist verði við af hörku.

Fyrstu viðbrögð Norður-Kóreumanna voru að krefja Bandaríkin um að draga viðskiptaþvinganirnar til baka þegar í stað. Yrði það ekki gert myndi Norður-Kórea slíta öll stjórnmálatengsl við Bandaríkin. „Bandaríkin voga sér að ganga í berhögg við okkar æðsta yfirmann og framkvæma fjandsamlegustu aðgerðir sem beint hefur verið gegn okkur, sem ganga lengra en hin svonefndu mannréttindavandamál. Þetta jafngildir stríðsyfirlýsingu,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins.

AFP

Kom þar einnig fram að héðan í frá yrði samskiptum Norður-Kóreu við Bandaríkjamenn háttað í samræmi við stríðslög Alþýðuveldisins Kóreu, líkt og það var orðað í yfirlýsingunni. Auk Kims voru tíu aðrir háttsettir embættismenn Norður-Kóreu settir á svarta lista Bandaríkjanna þar sem þeir voru sagðir ábyrgir fyrir mannréttindabrotum og þeirri staðreynd að Norður-Kórea sé á meðal þeirra ríkja þar sem kúgun almennra borgara er mest.

Stjórnvöld nágrannaríkis Norður-Kóreu og bandamanns Bandaríkjanna, Suður-Kóreu, fögnuðu ákvörðun Bandaríkjanna í gær og sögðust vona að aðgerðirnar yrðu til þess fallnar að varpa ljósi á mannréttindabrotin í norðri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Ásgrímur Hartmannsson: 1950
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert