Turnbull lýsir yfir sigri í Ástralíu

Malcolm Turnbull lýsti yfir sigri í nótt.
Malcolm Turnbull lýsti yfir sigri í nótt. AFP

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcom Turnbull, lýsti í nótt yfir sigri íhaldssamrar samsteypustjórnar sinnar í þingkosningum sem fram fóru í síðustu viku.

Áður hafði leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Bill Shorten, játað sig sigraðan og óskað Turnbull til hamingju.

Kosningarnar voru nokkuð jafnar og enn er verið að telja atkvæði en búist er við að flokkar samsteypustjórnarinnar muni fá nógu mörg sæti á þinginu til að halda stjórnartaumunum. Flokkarnir hafa ekki tryggt sér meirihluta enn. Til þess þarf 76 sæti og þeir hafa fengið 74 en þeir njóta stuðnings þriggja óháðra þingmanna. Verkamannaflokkurinn hefur náð 66 sætum en enn er efi um fimm sæti.

Frá talningu atkvæðaseðla.
Frá talningu atkvæðaseðla. AFP

„Við höfum átt árangursríkar kosningar. Við höfum tryggt stærstan hluta sæta á þingi,“ sagði Turnbull á blaðamannafundi í nótt.

Úrslitin eru mjög jöfn. AFP segir Turnbull hafa átt erfitt með að ná til almennings með kosningaherferð sinni og að litið sé á hann sem elítista. Honum hafi gengið illa að sannfæra kjósendur um að hann væri ekki einfalt framhald af fyrrum forsætisráðherranum Tony Abbott og hélt því nýlega fram að áframhaldandi vera flokks síns í ríkisstjórn myndi þýða bæði „samfellu“ og „breytingar“. 

Orðin minntu marga á frasa satírískrar persónu Julia Louis-Dreyfus sem auglýsti „samfellu með breytingum“ og voru honum því síst til framdráttar í pólitískri umræðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert