Vísað úr landi fyrir búddatattú

Búdda-munkur í Búrma.
Búdda-munkur í Búrma. AFP

Yfirvöld í Búrma (Myanmar) ætla að vísa spænskum ferðamanni úr landi þar sem hann er með húðflúr af Búdda á fætinum sem sagt er móðgandi fyrir munka landsins.

Maðurinn var handtekinn í Bagan, bæ í miðju landsins. Bagan er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem sækja í að skoða hofin sem þar er að finna.

„Munkar í Bagan sáu tattú af Búdda á hægri fæti hans því hann var í stuttbuxum,“ segir lögreglumaður í samtali við AFP-fréttastofuna. „Þeir sögðu okkur að þeim þætti þetta ekki viðeigandi.“

Lögreglan staðfestir að manninum verði í dag vísað úr landi og sendur til Taílands. „Við sendum hann aftur því hann braut reglur hér,“ segir lögreglumaður sem vill ekki láta nafns síns getið í frétt AFP.

Þjóðernissinnaðir búddistar hafa verið að sækja í sig veðrið í Búrma síðustu misseri. Hreyfingin er enn sem komið er lítil en þó áhrifamikil. Búddistar eru í miklum meirihluta þjóðarinnar. Aðeins um 5% eru múslímar. 

Þjóðernishreyfing búddista berst gegn vestrænum áhrifum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert