Skutu á svartan sálfræðing

Sálfræðingurinn Charles Kinsey (t.v.) liggur á bakinu með hendur uppréttar …
Sálfræðingurinn Charles Kinsey (t.v.) liggur á bakinu með hendur uppréttar við hlið skjólstæðings síns.

Lögreglumaður í Flórída skaut á sálfræðing sem var að sinna einhverfum skjólstæðingi sínum úti á götu. Sálfræðingurinn hafði rétt upp báðar hendur og ítrekað beðið lögregluna að leggja niður vopn, þeirra gerðist ekki þörf. Skjólstæðingur hans hafði gengið út af meðferðarheimili í uppnámi og var sálfræðingurinn að reyna að róa hann niður þar sem hann lá og lék sér með leikfangabíl á götunni.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að á myndbandsupptöku megi sjá að sálfræðingurinn, hinn 47 ára gamli Charles Kinsey, lá á götunni á bakinu með hendur uppréttar við hlið skjólstæðings síns sem hrópaði á hann að þegja. Sjónarvottar höfðu haft samband við lögregluna og sagt að á svæðinu væri maður sem hótaði að skjóta sig. 

Á myndbandinu má heyra Kinsey hrópa á lögregluna, sem var opnuð rifflum, að hann sé sálfræðingur og að skjólstæðingur hans haldi á leikfangabíl. 

Þá má heyra sálfræðinginn reyna að róa skjólstæðing sinn og biðja hann að leggjast niður líkt og lögreglan hafði skipað. Augnabliki síðar heyrast skothvellir og Kinsey er skotinn í fótinn.

Á myndbandinu spyr sá sem tekur það upp félaga sinn: „Af hverju skutu þeir svarta manninn, en ekki þann feita?“ 

„Sá feiti“ er skjólstæðingurinn sem sat öskrandi á sálfræðinginn á götunni. Á meðan lá sálfræðingurinn í götunni með hendur uppréttar. 

Kinsey segir að hann hafi sagt lögreglunni að engin þörf væri til að nota skotvopn. 

Aðstoðarlögreglustjórinn í Norður-Miami segir að lögreglumennirnir hafi skipað Kinsey og skjólstæðingi hans að liggja á jörðinni. Síðan hafi skotum verið hleypt af. 

Hvorki Kinsey eða skjólstæðingur hans voru vopnaðir. 

Kinsey vinnur fyrir mannúðarsamtökin Circle of Brotherhood sem sinna ýmsum samfélagsmálum. Kinsey vinnur á sambýli.

Samtökin segja að enn á ný hafi lögreglan í Bandaríkjunum skotið á óvopnaðan, svartan mann. 

Kinsey er enn á sjúkrahúsi að jafna sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert