„Ég er þýskur!“

Lögreglumaður við Olympia-verslunarmiðstöðina í gærkvöldi þar sem árásin átti sér …
Lögreglumaður við Olympia-verslunarmiðstöðina í gærkvöldi þar sem árásin átti sér stað. AFP

Myndband sem birtist á Twitter í gær virðist sýna árásarmanninn í München í gær í hávaðarifrildi við annan mann. Frá þessu greinir Guardian.

Lögregla hefur tilkynnt að árásarmaðurinn var 18 ára, með þýskt og íranskt ríkisfang. Hann er ekki á sakaskrá og hefur ekki tengsl við hryðjuverkahópa sem vitað er til. Hann fannst látinn með skotsár sem hann veitti sér sjálfur. Níu fórnarlömb eru látin. BBC segir 16 særða, þar af þrjá lífshættulega. Árásin er sú þriðja í Evrópu á átta dögum og önnur árásin í Bæjaralandi á innan við viku.

Í myndskeiðinu heyrist í manni sem ekki er í mynd æpa blótsyrði í átt að öðrum manni sem er svartklæddur og gengur fram og til baka á þaki tóms bílastæðahúss. Maðurinn sem ekki sést heyrist segja einhverjum að maðurinn á þakinu sé með byssu og heyrist þá árásarmaðurinn meinti svara „Fokking Tyrkir!“. 

Maðurinn sem ekki er í mynd æpir „Hann er búinn að hlaða byssuna sína. Fáið löggurnar hingað,“ og meinti árásarmaðurinn kallar á móti: „Ég er þýskur“.

Maðurinn úr mynd, sem stendur á svölum byggingar við hlið bílastæðahússins svarar: „Þú ert kunta, það er það sem þú ert.“ Maðurinn á þakinu krefst þess að hinn hætti að taka samskipti þeirra upp en hinn æpir þess í stað aftur: „Kunta er það sem þú ert, hvurn fjandann ertu að gera?“

Árásarmaðurinn meinti svarar: „Já hvað, ég fæddist hérna,“ og bætir við að hann hafi alist upp í landinu og vísar í hverfi tengt við atvinnuleysisbætur.

Stuttu síðar byrjar hann að skjóta og maðurinn á svölunum skýlir sér.

Stuttu síðar lýkur myndbandinu. Innihald þess hefur ekki verið vottað af yfirvöldum. Hægt er að lesa samtalið í heild sinni hér. Lögreglan í München segir hvatann að baki árásinni vera algerlega óljósan en að hann sé nú miðpunktur rannsóknar þeirra. 

Uppfært 09:10

Lögregla kveðst nú vinna út frá því að árásarmaðurinn sé sá sem sést á þaki bílastæðahússins í myndskeiðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert