Erdogan lokar þúsund einkaskólum

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur framlengt heimild lögreglunnar þar í landi til þess að halda grunuðum brotamönnum í haldi án ákæru í þrjátíu daga.

Þá hefur hann einnig fyrirskipað að yfir eitt þúsund einkaskólum verði lokað og 1.200 félagasamtök lögð niður.

Samkvæmt neyðarlögunum sem samþykkt voru í landinu á miðvikudag hafa tyrknesk stjórnvöld ríkar og víðtækar heimildir til þess að grípa til aðgerða sem þessara. Um leið var lýst yfir þriggja mánaða neyðarástandi í Tyrklandi.

Erdogan sagði neyðarlögin nauðsynleg til þess að gera yfirvöldum það kleift að „fjarlægja strax alla þá“ sem tóku þátt í valdaránstilrauninni misheppnuðu í vikunni sem leið.

Að minnsta kosti sextíu þúsund Tyrkir hafa annaðhvort verið handteknir eða leystir frá störfum undafarna daga. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt pólitískar hreinsanir Erdogans.

Erdogan sakar tyrkneska klerkinn Fethullah Gulen um að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni. Gulen hefur hins vegar neitað sök.

Hreinsanirnar undanfarna daga hafa fyrst og fremst beinst að fylgismönnum Gulens, en margir þeirra hafa starfað í tyrkneska menntakerfinu.

Hefur tugþúsundum starfsmanna menntakerfisins verið vikið frá og fjölmörgum skólum lokað.

Einnig hafa tyrknesk stjórnvöld lagt niður nítján verkalýðssamtök, lokað fimmtán háskólum og 35 heilbrigðisstofnunum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

AFP

Eins og áður sagði hefur að minnsta kosti sextíu þúsund ríkisstarfsmönnum verið vikið frá eða þeir handteknir, en rúmur helmingur þessa hóps er kennarar, háskólaprófessorar, deildarforsetar eða starfsmenn tyrkneska menntamálaráðuneytisins.

Í morgun tilkynnti tyrkneski saksóknarinn Harun Kodalak að 1.200 hermenn, sem voru handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar, hefðu verið leystir úr haldi.

Þúsundir hermanna eru hins vegar enn í varðhaldi, sem og yfir eitt hundrað hershöfðingjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert