Var með skotárásir „á heilanum“

Lögregla í München í dag.
Lögregla í München í dag. AFP

Ekkert bendir til að 18 ára unglingurinn sem framdi skotárás við Olympia-verslunarmiðstöðina í München í gær hafi átt sér samverkamenn. Leitað hefur verið í herbergi hans og ekkert hefur fundist sem tengir hann við samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Hann var fæddur í München og var með þýskan og íranskan ríkisborgararétt. Á heimili hans fundust engin tengsl við samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki en skjöl og bækur tengdar skotárásum fundust, þar á meðal bók með titlinum „Af hverju drepa námsmenn?“.  

Frá þessu greindi lögreglustjórinn í borginni, Hubertus Andrae, á blaðamannafundi sem lauk fyrir skömmu. Í frétt sinni um málið segir BBC að árásarmaðurinn hafi haft skotárásir „á heilanum“.

Táningurinn var með Glock-17 skammbyssu og 300 skothylki í töskunni. Svo virðist sem engar pólitískar hvatir hafi legið að baki gerðum hans.

Árásarmaðurinn hafði verið í sálfræði- og læknismeðferð vegna þunglyndis. Taka mun nokkurn tíma að ákvarða hvort hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Segir lögregla að foreldrar drengsins hafi ekki verið í andlegu ásigkomulagi til að gefa lögreglu skýrslu.

Andrae sagði lögreglu hafa skotið á árásarmanninn en ekki hitt hann. Þegar hann fannst, um kílómetra frá Olympia, var hann með eitt skotsár á höfðinu og er gert ráð fyrir að hann hafi framið sjálfsvíg.

Bein lýsing Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert