Asíuríki ósammála um tilkall Kínverja

Fánar aðildarríkja samtaka ríkja Suðaustur-Asíu í höfuðborg Laos, Vientiane, þar …
Fánar aðildarríkja samtaka ríkja Suðaustur-Asíu í höfuðborg Laos, Vientiane, þar sem samtökin funda nú. AFP

Samtök ríkja í Suðaustur-Asíu hafa ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um tilkall Kína til hafsvæðis Suður-Kínahafs, en þau funda nú í Laos.

Gerðardómur á vegum Alþjóðadómstólsins í Haag úrskurðaði fyrr í þessum mánuði að enginn lagalegur grunnur væri fyrir tilkalli Kínverja til svæðisins, eftir að filippseysk stjórnvöld höfðuðu mál gegn þeim. Kínverjar hafna niðurstöðunni, en stjórnvöld þar í landi hyggjast loka af hluta svæðisins fyrir heræfingar.

Frétt mbl.is: Halda áfram heræfingum á Suður-Kínahafi

Tíu ríki eiga sæti í samtökunum; Indónesía, Malasía, Filippseyjar, Singapúr, Taíland, Brúnei, Kambódía, Laos, Mjanmar og Víetnam. Fjögur þessara ríkja, Filippseyjar, Víetnam, Malasía og Brúnei, gera einnig tilkall til Suður-Kínahafs, auk Tævans.

BBC hefur eftir ónefndum diplómata sem situr fundarhöldin að Kambódíumenn hafi komið í veg fyrir allar umræður um málin, en þeir eru bandamenn Kínverja, sem hafa hvatt ríkin til að senda ekki frá sér yfirlýsingu. Sérfræðingur í málefnum svæðisins, Malcom Cook, segir aðgerðir Kambódíu skaða samheldni og orðspor samtakanna.

Hafa samtökin nú tíma til fimmtudags til að komast að samkomulagi, en gerist það ekki verður það einungis í annað skipti í sögunni sem ríki þess senda ekki frá sér sameiginlega yfirlýsingu eftir fundarhöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert