Þjóðarsorg í Afganistan

Lögreglumenn á vettvangi í Kabúl.
Lögreglumenn á vettvangi í Kabúl. AFP

Stjórnvöld í Afganistan hafa bannað allar opinberar samkomur og mótmæli næstu tíu daga í landinu eftir sprengjuárásina sem gerð var í Kabúl, höfuðborg landsins, í gær.

Jarðarfarir fórnarlambanna fara fram í höfuðborginni í dag. Áttatíu manns létu lífið og að minnsta kosti 230 særðust í árásinni, en hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á henni.

Árásin beindist að fjölmennri kröfugöngu minnihlutahóps Hazara, sem eru sjía-múslimar. Þúsund­ir Haz­ara voru komn­ir sam­an til þess að krefjast þess að ný raf­magns­lína, sem til stend­ur að reisa, liggi í gegn­um Bamiy­an-hérað. Þar er mik­ill skort­ur á raf­magni og er svæðið eitt það bág­stadd­asta í Af­ghan­ist­an. Þar býr mik­ill fjöldi Haz­ara sem hafa lengi orðið fyr­ir mismun­un í land­inu.

Ashraf Ghani, forseti Afganistans, hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu. Hann hefur sagst ætla að leita hefnda gagnvart þeim sem báru ábyrgð á voðaverkunum.

„Við vorum að halda friðsöm mótmæli þegar ég heyrði sprengjuhvelli. Síðan flúðu allir og öskruðu,“ segir einn mótælandi, Sabira Jan, í samtali við breska ríkisútvarpið.

„Það var enginn til þess að hjálpa fórnarlömbunum. Lögreglumenn horfðu á okkur og eftir að ég heyrði skothvellina, þá vissi ég ekki hvað gerðist.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert