Tígrisdýr réðust á konur

Atvikið sást vel á öryggismyndavélum.
Atvikið sást vel á öryggismyndavélum. Skjáskot/ BBC

Tígrisdýr í opnum dýragarði í Peking drápu eina konu og særðu aðra eftir að þær yfirgáfu farartæki sitt á ferð um garðinn.

BBC vitnar í kínverska miðla sem segja myndskeið úr öryggismyndavélum sýna aðra konuna stíga út úr bílnum og standa við hlið hans áður en tígrisdýr ræðst snögglega á hana og dregur hana í burtu. Seinni konan dó þegar hún hoppaði út úr bílnum til að reyna að hjálpa hinni en varð fyrir árás annars tígrisdýrs.

Segja sumir miðlar að konan hafi farið úr bílnum vegna ágreinings. Karl sem var í bílnum með konunum og reyndi að hjálpa þeim slapp ómeiddur.

Gestir Badaling Wildlife World-garðsins í Peking mega keyra eigin farartæki um garðinn en varað er við því að fara út úr þeim á svæðum sem eru opin villtum dýrum.

Myndskeið af atvikinu gefa til kynna að starfsmenn garðsins hafi verið komnir á staðinn innan fáeinna sekúndna en hafi ekki getað bjargað annarri konunni. Konan sem lifði af er undir læknishöndum en ekki hafa verið gefnar frekari upplýsingar um líðan hennar.

Stjórn garðsins hefur ekki gefið út yfirlýsingu vegna málsins og segir garðinn hafa lokað í kjölfarið vegna slæmrar veðurspár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert