16 ára vinur árásarmannsins handtekinn

David Ali Sonboly er sagður hafa skipulagt árásina í meira …
David Ali Sonboly er sagður hafa skipulagt árásina í meira en ár. Skjáskot

Lögreglan í München hefur handtekið 16 ára gamlan vin táningsins sem myrti níu og særði 35 í skotárás við verslunarmiðstöð í borginni á föstudag. Frá þessu greinir AFP. 

„Við höfum grun um að þessi drengur sem er 16 ára gamall gæti hafa vitað af aðgerðinni,“ sagði lögregla í yfirlýsingu samkvæmt AFP.

Sky News segir að talið sé að drengurinn hafi ekki bara vitað af því að árásin væri yfirvofandi, án þess að láta lögreglu vita, heldur hugsanlega einnig tekið þátt í að brjótast inn á Facebook-síðu stúlku og skrifa þar færslu til að lokka fórnarlömb að McDonald's þar sem árásin var síðar framin.

Drengurinn er sá fyrsti sem handtekinn er vegna rannsóknar málsins en árásarmaðurinn, hinn 18 ára David Ali Sonboly, framdi sjálfsmorð í kjölfar árásarinnar.

Frá vettvangi árásarinnar.
Frá vettvangi árásarinnar. AFP



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert