Kalla eftir samstöðu í skugga hneykslis

Hillary Clinton og Bernie Sanders.
Hillary Clinton og Bernie Sanders. AFP

Flokksþing bandaríska Demókrataflokksins hófst í dag þar sem Hillary Clinton verður formlega útnefnd forsetaefni flokksins. Flokksþingið fer fram í skugga þess að tölvupóstum var lekið sem benda til þess að forystumenn flokksins hafi reynt að grafa undan Bernie Sanders sem keppti við Clinton um að verða forsetaframbjóðandi demókrata.

Sanders laut í lægra haldi fyrir Clinton og lýsti í kjölfarið yfir stuðningi við hana. Demókratar hafa í kjölfarið kallað eftir samstöðu og í anda þess hefur Sanders verið boðið að vera einn af helstu ræðumönnum flokksþingsins sem standa mun í fjóra daga. Þar hyggst Sanders hvetja fólk til þess að kjósa Clinton og koma þannig í veg fyrir að Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Trump var formlega útnefndur forsetaefni repúblikana á flokksþingi Repúblikanaflokksins í síðustu viku. Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina CNN benda til þess að Trump njóti stuðnings 48% kjósenda en Clinton 45%. Breytingin frá síðustu könnun er sex prósentustig. Trump hefur sakað forystumenn demókrata um að hafa óeðlileg áhrif á forval Demókrataflokksins í því skyni að tryggja framboð Clintons.

Stuðningsmenn Sanders gætu stutt Trump

Tæplega 20 þúsund tölvupóstar í eigu háttsettra forystumanna í Demókrataflokknum voru birtir um helgina af uppljóstrunarvefnum Wikileaks. Póstarnir ná til tímabilisins frá janúar 2015 og fram í maí 2016. A.m.k. tveir póstanna benda til þess að háttsettir aðilar í flokknum hafi reynt að grafa undan framboði Sanders með því að ýta undir tortryggni vegna trúarskoðana hans og uppruna. Formaður Demókrataflokksins, Debbie Wasserman Schultz, sagði af sér í kjölfarið.

Afsögn Schultz, sem tekur formlega gildi í lok flokksþings Demókrataflokksins, kom í kjölfar þess að Sanders hvatti hana til þess að segja af sér. Hann sagði hana í kjölfarið hafa tekið rétta ákvörðun fyrir framtíð flokksins. Kallaði hann eftir því að ný forysta gætti þess að hafa aldrei hlutdræg afskipti af forvali demókrata í aðdraganda forsetakosninga líkt og raunin hefði verið í þetta skiptið. Ítrekað hann ennfremur það að Clinton yrði að sigra Trump.

Á hinn bóginn er talið að fjölmargir stuðningsmanna Sanders gætu hugsanlega tekið upp á því sem áður þótti óhugsandi að styðja Trump eða í það minnsta kjósa ekki demókrata. Þeir eigi það að minnsta kosti sameiginlegt með Trump að vera andsnúnir hefðbundnum stjórnmálum og kerfinu. Þetta eigi til að mynda við um fólk sem mómælt hafi í Fíladelfíu í Bandaríkjunum í gær. AFP hefur eftir þeim að þeir myndu frekar vilja sjá Trump forseta en Clinton.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert