Nauðgað af tveimur mönnum

Lögregla í Manali greindi frá málinu í morgun.
Lögregla í Manali greindi frá málinu í morgun. AFP

25 ára ísraelsk kona tilkynnti í gær að sér hafi verið nauðgað af tveimur mönnum í indverska bænum Manali um helgina. Konan sagði lögreglu að ráðist hafi verið á hana snemma í gærmorgun eftir að hún veifaði bifreið sem hún hélt að væri leigubíll. Bað hún ökumanninn um far til næsta bæjar að sögn lögreglumannsins Padam Chand.

„Það voru sex manns í bílnum og tveir þeirra nauðguðu konunni að hennar sögn,“ sagði Chand í samtali við AFP. Bætti hann við að mennirnir hafi flúið af vettvangi.

Lögregla skoðar nú upptökur eftirlitsmyndavéla á götum Manali en bærinn er vinsæll meðal erlendra ferðamanna.

Konan hefur verið á sjúkrahúsi síðan hún tilkynnti árásina og verður í dag flutt á stærra sjúkrahús þar sem hún fær betri skoðun að sögn lögreglu.

Indversk stjórnvöld hafa hert refsingar við nauðgunum í landinu eftir að kona lét lífið í hópnauðgun árið 2012. Sú árás varpaði ljósi á kynbundið ofbeldi í Indlandi. Þrátt fyrir það eru nauðganir og kynferðisofbeldi daglegt brauð í landinu og eru erlendar konur einnig þolendur. 

Bandarískri konu var nauðgað í Manali árið 2013 af þremur mönnum eftir að hún fékk far með þeim í bíl. Þá var ástralskri konu nauðgað á svipuðum slóðum árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert