Sér eftir því að hafa ekki tjáð sig um missinn

Harry segist sjá eftir því að hafa ekki tjáð sig …
Harry segist sjá eftir því að hafa ekki tjáð sig um hvaða áhrif andlát móður hans hafði á hann. AFP

Harry Bretaprins segist sjá eftir því að hafa ekki tjáð sig fyrr um hvaða áhrif dauðsfall móður hans, Díönu prinsessu af Wales, hafði á hann. Díana lést í bílslysi 1997, þegar Harry var aðeins 12 ára.

Ummælin lét prinsinn falla á viðburði á vegum Heads Together, regnhlífasamtaka félaga sem láta sig geðsjúkdóma varða. Hann sagði í samtali við BBC að viðburðurinn væri tilefni til að koma því á framfæri að andlegir sjúkdómar færu ekki í manngreiningarálit.

Meðal viðstaddra voru knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinard og fleira íþróttafólk, sem sumt hefur tjáð sig opinberlega um glímuna við þunglyndi.

„Það er allt í lagi að þjást, en svo lengi sem þú talar um það. Það er ekki veikleiki. Það er veikleiki að eiga við vandamál að stríða og horfast ekki í augu við það og takast ekki á við vandann,“ sagði Harry í samtali við BBC Breakfast.

Hann ítrekaði að enginn væri ónæmur fyrir andlegum veikindum.

„Margt fólk heldur að ef þú ert með vinnu, ef þú býrð við fjárhagslegt öryggi, ef þú átt fjölskyldu, hús; allt það, þá virðist fólk halda að það sé allt sem þú þarft og að það sé ekkert mál að takast á við hlutina,“ sagði hann.

Þá ræddi prinsinn um dauðsfall móður sinnar við Ferdinand og sagði: „Veistu, ég virkilega sé eftir því að hafa ekki talað um það.“

Ferdinand, sem er þriggja barna faðir, tjáði sig einnig um foreldramissi og sagði fróðlegt að heyra hvað prinsinn hefði að segja. Hann sagði börnin sín eiga eftir að ganga í gegnum það sem Harry upplifði á sínum tíma, en eiginkona og barnsmóðir Ferdinand, Rebecca Ellison, lést úr krabbameini á síðasta ári.

„Það er auðvelt að horfa á einhvern eins og Rio Ferdinand og segja: „Þú færð greiddan allan peninginn í heiminum, þú ert farsæll knattspyrnumaður, þú átt hraðskreiða bíla.“ En það breytir því ekki að eiginkonan hans var hrifsuð frá honum við upphaf lífs þeirra saman,“ sagði Harry um knattspyrnugoðið.

„Að sjálfsögðu þjáist hann, þar skiptir ekki máli að hann er í frábæru starfi.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert