Þrír alvarlega særðir eftir sprengingu

Þýskir lögreglumenn hafa nú afmarkað miðbæ Ansbach. Mynd úr safni.
Þýskir lögreglumenn hafa nú afmarkað miðbæ Ansbach. Mynd úr safni. AFP

Þrír eru alvarlega særðir eftir að sýrlenskur hælisleitandi sprengdi sig upp í þýska bænum Ansbach í gærkvöldi. Alls særðust tólf en hælisleitandinn lést.

Að sögn innanríkisráðherra Bæjaralands var hælisleitandinn 27 ára gamall en hann sprengdi sig upp eftir að honum var meinaður aðgangur að tónlistarhátíð sem var í gangi í bænum.

Fyrri frétt mbl.is: Sprenging í Þýskalandi

Um 2.500 manns voru fluttir af hátíðinni eftir sprenginguna.

Mikil spenna hefur verið í Bæjaralandi síðan annar hælisleitandi réðst á fólk í lest með öxi fyrir viku. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á þeirri árás. Sá hælisleitandi var frá Afganistan en hann var skotinn til bana eftir að hafa sært fimm manns. Þá létu níu lífið í skotárás í München á föstudaginn en sú árás er ekki talin tengjast hryðjuverkum en árásarmaðurinn framdi sjálfsvíg á vettvangi.

Sprengingin í gær varð um klukkan 22:10 að staðartíma eða 20:10 að íslenskum tíma fyrir utan bar í miðbæ Ansbach, nálægt innganginum að tónlistarhátíðinni Ansbach Open.

40.000 manns búa í bænum en þar er m.a. bandarísk flugstöð.

Lögregla hefur nú afmarkað miðbæinn og er verið að rannsaka hvers konar sprengiefni árásarmaðurinn notaði.

Hann kom til Þýskalands fyrir tveimur árum en hælisumsókn hans var hafnað fyrir ári. Hann hafði þó fengið tímabundið leyfi til þess að vera áfram í Þýskalandi í ljósi ástandsins í heimalandinu. Hann bjó í Ansbach.

Innanríkisráðherra Bæjaralands, Joachim Herrmann, sagði í nótt að atvikið sýndi þörfina á því að „herða eftirlit með því hverjir búa í landinu okkar.“ Sagði hann að maðurinn hafi reynt að fremja sjálfsvíg tvisvar og verið vistaður á geðdeild.

„Við vitum ekki hvort þetta hafi verið skipulagt sem sjálfsvíg eða hvort hann ætlaði að drepa aðra,“ sagði Hermann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert