Tveir teknir af lífi í Sádi-Arabíu

Helstu ráðamenn Sádi-Arabíu.
Helstu ráðamenn Sádi-Arabíu. AFP

Tveir dæmdir morðingjar voru teknir af lífi í Sádi-Arabíu í morgun, samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti landsins. Alls hafa 107 fangar verið teknir af lífi þar það sem af er ári.

Fahd al-Ishan var dæmdur til dauða fyrir að hafa stungið mann til bana, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Hann var tekinn af lífi í Jawf-héraði. Mohammed al-Shahrani, sem var dæmdur til dauða fyrir að hafa skotið mann til bana, var tekinn af lífi í Assir-héraði í morgun.

Í gær voru fjórir Sádar teknir af lífi en þeir höfðu allir verið dæmdir til dauða fyrir morð. Yfirleitt eru hinir dauðadæmdu í Sádi-Arabíu teknir af lífi með því að afhöfða þá með sverði. 

Aftökum hefur fjölgað mjög í konungsríkinu og hafa mannréttindasamtökin Amnesty International gagnrýnt þessa þróun harðlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert