Clinton hlýtur útnefningu demókrata

Hillary Clinton verður forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum í nóvember.
Hillary Clinton verður forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum í nóvember. AFP

Hillary Clinton hefur tryggt sér útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Clinton hefur þar með brotið blað í sögunni, en hún er fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna sem hefur hlotið útnefningu sem forsetaframbjóðandi annars stærstu stjórnmálaflokka landsins.

Það voru kjörmenn frá Suður-Dakóta, sem veittu Clinton 15 atkvæði, sem tryggðu að hún hafði meira en þau 2.383 atkvæði sem voru henni nauðsynleg til að  tryggja sér útnefningu flokksins á flokksþingi demókrata sem nú fer fram í Philadelphiu.

Eftir harða baráttu við Bernie Sanders um útnefningu Demókrataflokksins hefur nú verið staðfest að Clinton fer fyrir hönd demókrata gegn Donald Trump, forsetaefni repúblikana, er forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum 8. nóvember nk.

Fulltrúar á flokksþinginu hrópuðu „Hillary, Hillary“ þegar öldungadeildarþingmaðurinn Barbara Mikuluski frá Maryland tilnefndi Clinton formlega áður en atkvæðagreiðsla hófst í kvöld.

„Já við rjúfum múra. Ég rauf múra þegar ég varð fyrsta konan úr röðum demókrata til að vera kjörin í öldungadeildina á eigin verðleikum,“ sagði Mikulski. „Þannig að það er mér mikil gleði að tilnefna Hillary Clinton sem fyrsta kvenforsetann,“ sagði hún.

„Sögulegt,“ sagði Clinton í twitterskilaboðum sem hún sendi frá sér.

Þótt fyrir hafi legið að Clinton hlyti útnefningu flokksins bar töluvert á mótmælum á flokksþinginu í gær er margir harðir stuðningsmenn Sanders létu óánægju sína í ljós.

Mun minna bar hins vegar á slíkri óánægju á flokksþinginu í dag, að sögn AFP-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert