Handtekinn fyrir að hafa mök við börn

Samkvæmt hefð á sumum svæðum í Malaví þarf að hjálpa …
Samkvæmt hefð á sumum svæðum í Malaví þarf að hjálpa börnum að komast til fullorðinsára með kynferðislegri hreinsun. Af Wikipedia

Eric Aniva, sem býr í suðurhluta Malaví, hefur verið handtekinn eftir að hann greindi frá því í viðtali að hann hefði oftsinnis fengið greitt fyrir að hafa mök við ungar stúlkur í þorpi sínu. Stúlkurnar eru allt niður í tólf ára gamlar. Um gamla hefð er að ræða, þar sem karlmaður er látinn hafa mök við stúlkur eftir að þær hafa haft sínar fyrstu blæðingar. Athöfnin er sögð hreinsun en reynt er nú að útrýma þessum sið sem viðgengst á afskekktum svæðum í Malaví. 

Frétt mbl.is: Borgað fyrir að hafa mök við börn

Athöfnin fer þannig fram að á þriggja daga tímabili þurfa stúlkurnar ítrekað að hafa mök við karlmanninn. Mennirnir sem fengnir eru til þessa starfs, oftast af foreldrum stúlknanna með blessun öldunganna í þorpinu, eru kallaðir „hýenur“.

Þorpsbúar trúa því margir að með þessu sé verið að þjálfa stúlkurnar til að takast á við fullorðinsárin og í því að „gleðja“ tilvonandi eiginmenn sína kynferðislega. HIV-smit er útbreitt í Malaví og viðurkenndi Aniva í viðtalinu að hann væri smitaður en léti stúlkurnar, sem þvingaðar eru til maka við hann, vita af því. 

Karl­menn­irn­ir sem velj­ast til verks­ins eru sagðir „siðferðis­lega sterk­ir“ og geti því ekki smitað stúlk­urn­ar af kyn­sjúk­dóm­um á borð við HIV. Bannað er að nota verj­ur í at­höfn­inni.

„Aniva var handtekinn á mánudag eftir að ég hafði boðað hann á skrifstofu mína,“ segir lögreglustjórinn á svæðinu, Gift Lapozo, í samtali við AFP-fréttaveituna.

Viðtal við Aniva, sem útvarpað var á BBC í síðustu viku, vakti gífurlega athygli. Í því sagðist hann hafa sofið hjá yfir hundrað stúlkubörnum.

„Sumar stúlkurnar eru aðeins 12 eða 13 ára en ég kýs að hafa þær eldri,“ sagði hann m.a. „Allar þessar stúlkur njóta þess að hafa mig sem hýenuna þeirra. Þær eru í raun stoltar af og segja öðrum að ég sé alvörukarlmaður, að ég kunni að geðjast konum.“

Stúlkur sem BBC ræddi við sögðust hins vegar kvíða athöfninni og alls ekki kjósa að taka þátt í henni. 

Peter Mutharika, forseti Malaví, gaf út handtökuskipun á Aniva í kjölfarið og bað um að hann yrði tekinn til yfirheyrslu. Þá bað hann einnig um að rannsókn yrði hafin á þátttöku foreldra stúlknanna í athöfninni. „Skaðlegar menningarlegar athafnir sem byggjast á hefðum verða ekki liðnar,“ sagði forsetinn.

Ekkjur eru einnig látnar taka þátt í þessum hreinsunarathöfnum á svæðinu. Það er sagt gert til að losa þær við illa anda og til að koma í veg fyrir fleiri dauðsföll í fjölskyldunni.

Verði Aniva fundinn sekur um að hafa haft mök við stúlkur undir lögaldri á hann lífstíðarfangelsisdóm yfir höfði sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert