Handtóku tvo til viðbótar

84 létu lífið í árásinni sem var gerð við strandgötuna …
84 létu lífið í árásinni sem var gerð við strandgötuna í miðborg Nice. AFP

Lögregla í Frakklandi hefur handtekið tvo menn til viðbótar í tengslum við árásina í Nice á Bastilludaginn þar sem 84 létu lífið. Heimildarmaður innan rannsóknarinnar staðfestir þetta í samtali við AFP.

Er nú verið að reyna að rannsaka hvort árásarmaðurinn, Mohamed Lahouaiej Bouhlel, hafi fengið aðstoð við skipulagningu árásarinnar. Saksóknarar telja að hann hafi lengi skipulagt árásina þar sem hann ók 19 tonna vörubíl inn í hóp fólks sem hafði verið að horfa á flugeldasýningu í tilefni dagsins.

Fjórir karlar og ein kona hafa þegar verið ákærð fyrir að hafa verið samverkamenn árásarmannsins. Að sögn saksóknarans Francois Molins benda samskipti hinna ákærðu við árásarmanninn til þess að þau hafi vitað af áætlunum hans en Bouhlel var skotinn til bana af lögreglu.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en að sögn rannsakenda bendir ekkert til þess að Bouhlel hafi lýst yfir stuðningi við samtökin. Hins vegar fundu rannsakendur myndir á tölvu hans tengdar samtökunum og jafnframt hryðjuverkasamtökunum Al-Qaeda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert