Minna á fangelsið við Guantanamo-flóa

Þessi mynd er meðal þeirra sem vakið hefur óhug í …
Þessi mynd er meðal þeirra sem vakið hefur óhug í Ástralíu. Skjáskot af vef ABC

Stjórnvöld í Ástralíu hafa nú fyrirskipað rannsókn á myndum og myndböndum sem sýna meðferð fangavarða á ungum föngum í sérstöku unglingafangelsi í landinu. Á einu myndbandinu má sjá unglingsdreng með hettu á höfðinu og hlekkjaðan við stól. Eru myndböndin sögð minna á myndir af aðgerðum fangavarða í fangelsinu við Guantanamo-flóa.

Ríkismiðillinn ABC birti myndböndin og myndirnar í gærkvöldi. Má þá sjá fangana, sem voru flestir unglingsdrengir, standa nakta, verða fyrir táragasi og haldið í einangrun í margar vikur. Í einu myndbandi sem var tekið á síðasta ári mátti sjá 17 ára dreng með hettu yfir andlitinu, hlekkjaðan við stól. Þar sat hann einn í tvær klukkustundir.

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, sagðist í dag vera í áfalli og misboðið vegna myndanna. „Eins og allir Ástralar er ég í áfalli og misboðið vegna myndanna þar sem börnum er misþyrmt,“ sagði hann.

Turnbull sagði að sérstök nefnd verði nú mynduð til þess að rannsaka fangelsið sem um ræðir. „Þetta þarfnast mikillar rannsóknar og hún þarf að gerast hratt,“ sagði forsætisráðherrann.

Fangelsið stendur í norðurhluta Ástralíu en þar er ein hæsta glæpatíðni landsins. Eru fangaverðir af frumbyggjaættum í meirihluta en fangarnir sömuleiðis. Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International eru börn af frumbyggjaættum 26 sinnum líklegri til þess að lenda í fangelsi en aðrir. Þurfa þau frekar að eiga við erfiðleika eins og litla menntun, atvinnuleysi og fíknivanda.

Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, segist vera misboðið og í áfalli …
Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, segist vera misboðið og í áfalli vegna myndanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert