Vill starfið þótt hún tali ekki spænsku

Börn við nám. Meirihluti íbúa sýslunnar er af rómönsk eða …
Börn við nám. Meirihluti íbúa sýslunnar er af rómönsk eða latnesku bergi brotin og segir lögfræðingur Rosner hana því teljast til minnihlutahóp. AFP

Kennari á Flórída, sem talar enga spænsku, hefur höfðað mál á hendur skólanum sem hún kennir við fyrir að neita henni um starf sem krefst þess að viðkomandi kenni spænsku í klukkutíma á hverjum degi.

Tracy Rosner, sem kennir þriðja bekk, hefur farið í mál við skólayfirvöld í Miami Dade-sýslu og sakar þau um mismunun, en Rosner, sem er hvít, segir kynþátt sinn koma í veg fyrir að hún fái starfið.

Rosner hefur kennt í áratug við Coral Reef-grunnskólann og fór hún á síðasta ári fram á að fá að kenna nemendum lestur og ritlist á námsbraut sem er ætluð nemendum sem vilja læra annað tungumál en ensku í klukkutíma á dag.  

Skólinn hafnaði beiðni hennar og sagði ástæðuna þá að sá sem kenndi lestur og ritlist á námsbrautinni þyrfti að tala spænsku.

Lögfræðingur Rosner segir henni hins vegar hafa verið synjað um starfið á grundvelli kynþáttar. Ekki sé hægt að gera þá kröfu að Rosner tali spænsku líkt og þeir sem hafi spænsku að móðurmáli og að skólinn hefði átt að ráða Rosner í starfið og fá annan kennara til að taka að sér spænskuhluta námsins.

Í málsókninni er fullyrt að þar sem um tveir þriðju íbúa sýslunnar eru af latnesku eða spænsku bergi brotnir teljist þeir sem ekki tala spænsku til minnihlutahóps. Að neita Rosner um starfið á grundvelli þess að hún tali ekki spænsku jafngildi því mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernis.

Skólayfirvöld í Miami-Dade sýslu neituðu að tjá sig um málið við AFP-fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert