Kenna nágrönnunum um snáka

Norðurkóreskir landamæraverðir fylgjast með suðurkóreskum kollegum sínum við landamæri ríkjanna.
Norðurkóreskir landamæraverðir fylgjast með suðurkóreskum kollegum sínum við landamæri ríkjanna. AFP

Norðurkóreskum landamæravörðum hefur verið skipað að fanga snáka, sem suðurkóreska leyniþjónustan er sögð hafa sleppt lausum til að klekkja á nágrönnum sínum.

Stjórnvöld í Pyongyang munu hafa sagt hernum norðurkóreska, að leyniþjónusta nágrannanna í suðri bæri ábyrgð á óvenjulegum fjölda snáka í Ryanggang-héraði við nyrðri landamæri Norður-Kóreu, það er að segja þeim er tengja landið við Kína.

The Guardian hefur þetta hefur ónefndum heimildarmanni innan Norður-Kóreu, sem segir skilaboð stjórnvalda vera að suðurkóreska leyniþjónustan noti skriðdýr til að ógna samstöðu Norður-Kóreu. „Fyrr í mánuðinum fengu landamæraverðir það verkefni að fanga snáka áður en þeir skriðu yfir bakka Yalu-ár,“ en árnar Yalu og Tumen aðskilja Kóreuskaga frá Kína.

Eru margir hermenn sagðir ósáttir með fyrirmælin, að sögn heimildarmannsins, og trúa því ekki að Suður-Kórea notist við snáka í baráttunni gegn nágrönnum sínum. Þrátt fyrir efasemdir hefur norðurkóreska öryggisráðuneytið hvatt íbúa til að vera á varðbergi gagnvart snákunum, en orðrómur er uppi um að fólk hafi látist í kjölfar bita í landinu.

Hefur orðrómurinn orðið til þess að smyglarar sem ferðast reglulega yfir til Kína hafa keypt gúmmíbuxur, sem hefur orðið til þess að verð á þeim í landinu hefur snarhækkað upp í 60.000 norðurkóresk won, um 850 íslenskar krónur reiknað í gegnum Bandaríkjadal á óopinberu gengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert