Stærði sig af „arískum“ uppruna

Fólk biður við minnisvarða um voðaverkið við verslanamiðstöðina þar sem …
Fólk biður við minnisvarða um voðaverkið við verslanamiðstöðina þar sem Sonboly banaði níu. AFP

Fjöldamorðinginn sem lét til skarar skríða við verslanamiðstöð í München sl. föstudag var rasískur öfgamaður, sem áleit það sérstakan heiður að deila afmælisdegi með Adolf Hitler.

Hinn 18 ára Ali David Sonboly, sem varð níu að bana í árás sinni, var af írönsku bergi brotinn. Hann montaði sig af því við vini sína að vera „arískur“ og sagði aría upprunalega frá Íran. Þá lýsti hann ítrekað andúð sinni á Tyrkjum og aröbum.

Lögregla rannsakar nú m.a. hvort Sonboly beitti sjónum sínum sérstaklega að fólki af erlendum uppruna þegar hann freistaði þess að lokka fólk að McDonald's-stað í verslanamiðstöðinni.

Öll fórnarlömb hans áttu uppruna sinn að rekja til flóttafólks; þrír voru af tyrkneskum uppruna og þrír röktu ættir sínar til Kosovo.

Fyrr í dag tilkynnti lögregla að hún hefði handtekið 15 ára dreng sem er grunaður um að hafa átt í samskiptum við Sonboly á netinu og hafa sjálfur lagt drög að skotárás. Byssuskot, hnífar, sprengjugerðarleiðbeiningar og rýmingaráætlun skóla piltsins fundust á heimili hans.

Drengurinn hefur verið vistaður á stofnun fyrir geðsjúka.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert