Clinton þarf að heilla landþingið

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata veifa gestum …
Barack Obama Bandaríkjaforseti og Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata veifa gestum á landsfundi flokksins, eftir ræðu Obama í gær. AFP

Hillary Clinton flytur í kvöld ræðu sína á landsþingi Demókrataflokksins sem formlega útnefndi hana í gær forsetaframbjóðanda flokksins. Clinton bíður það erfiða verk að heilla fundargesti með ræðu sem stendur undir lofinu sem Barack Obama Bandaríkjaforseti, forsetafrúin Michelle Obama og varaforsetinn Joe Biden hafa ausið hana í ræðum sl. daga.  

Clinton þykir skilvirkur stjórnmálamaður í smærri hópum, en hefur ekki orð á sér sem mikill ræðumaður. Í ræðu sinni í kvöld, þar sem hún tekur formlega við útnefningu flokksins, þarf Clinton að færa sannfærandi rök fyrir því að hún geti komið á breytingum á sama tíma og hún standi fyrir sömu gildi og Obama. Clinton þarf einnig að ná til þeirra kjósenda sem ýmist treysta henni ekki, eða kunna ekki við hana.

„Hún hefur fengið alveg ótrúlega kynningu, en þetta er hennar stund,“ sagði Kristna Schake, ráðgjafi Clinton í viðtali við CNN. „Þetta er söguleg stund í kvöld …og hún mun flytja ótrúlega ræðu.“

Obama dró upp bjarta mynd af Bandaríkjunum í ræðu sinni, ólíkt Trump sem sagði Bandaríkin í vanda.

Talið er að Clinton verði á svipuðum nótum og Obama í ræðu sinni að sögn Reuters fréttastofunnar. Hún muni byggja á þeirri hugmynd sem hefur fylgt henni í gegnum allan hennar stjórnmálaferil – að allir Bandaríkjamenn eigi að fá tækifæri til að nýta hæfileika sína. Þá leggi hún einnig áherslu á að nú séu tvær leiðir færar - klofningsleiðin sem repúblikanar leggi til, eða leiðina fram á við þar sem þjóðin sé sterkari sameinuð.

Dóttir Clinton, Chelsea Clinton, mun kynna móður sína á sviðið í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert