Dýrin svelta í dýragörðunum

Dýrin í dýragörðum Venesúela fá lítinn sem engan mat. Mynd …
Dýrin í dýragörðum Venesúela fá lítinn sem engan mat. Mynd úr safni. AFP

Um 50 dýr í einum stærsta dýragarði Venesúela eru sögð hafa drepist úr hungri síðustu sex mánuðina vegna matarskorts í landinu.

Marlene Sifontes, formaður verkalýðsfélags dýragarðsstarfsmanna, sagði í samtali við Reuters að sum dýrin hafi verið matarlaus í tvær vikur áður en þau drápust.

Að sögn Sifontes fá ljón og tígrisdýr í dýragarðinum í Caracas mangó og grasker til þess að reyna að bæta upp fyrir kjötskortinn sem dýrin hafa orðið fyrir.

Fulltrúar stjórnvalda hafa þó neitað því að dýrin hafi drepist vegna næringarskorts.

Þá heldur Sifontes því fram að dýragarðar í öðrum borgum séu í enn verra ásigkomulagi og hafa starfsmenn þurft að biðja fyrirtæki í borgunum um matargjafir. Hún segir ástand dýranna sýna vel hversu slæmt ástandið er í landinu.

Matarskortur hefur verið í landinu síðustu mánuðina vegna bágs efnahagsástands.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert