Geta valið milli vonar og ótta

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, grátbað þjóð sína um að kjósa Hillary Clinton í forsetakosningunum í nóvember. Obama lofsöng frambjóðandann á flokksþingi demókrata í Philadelphiu í gærkvöldi og sagði hana hæfustu manneskjuna sem hefur boðið sig fram sem forseta.

Sagði hann kjósendur geta valið á milli vonar og ótta og gagnrýndi frambjóðanda repúblikana, Donald Trump, sem svaraði forsetanum á Twitter.

„Landið okkar hefur það ekki frábært þegar það kemur að þeim milljónum sem búa við fátækt, ofbeldi og örvæntingu,“ skrifaði Trump á Twitter.

Varaforseti Obama, Joe Biden, hélt einnig ræðu og sagði Trump styðja pyntingar, trúarlegt umburðarleysi og að hann svíki gildi þjóðarinnar.

„Hann veit ekkert hvað það er sem gerir Bandaríkin frábær,“ sagði Biden.

Obama sagði Clinton „alvöru leiðtoga með áætlanir til þess að brjóta niður hindranir, brjóta glerþök og skapa fleiri tækifæri fyrir alla Bandaríkjamenn.“

Þá ræddi hann um hugmynd Trump um Bandaríkin og sagði það ekki Bandaríkin sem hann þekkti. Lýsti hann þjóð sinni sem „fullri af hugrekki“, „sómalegri og göfuglyndri.“ Sagðist hann þó hafa áhyggjur af spennu í landinu vegna kynþáttaskiptingar og sagðist vera orðinn pirraður á „pólitísku þrátefli“.

Obama lofsöng jafnframt þjóð sína og sagði hana hafa ítrekað „borið sig uppi.“

„Ég vona að einhvern tímann hafi ég borið ykkur uppi líka,“ sagði Obama. „Í kvöld bið ég ykkur um að gera það fyrir Hillary Clinton sem þið gerðuð fyrir mig. Ég bið ykkur um að bera hana uppi eins og þið gerðuð við mig.“

Clinton kom síðan upp á svið og faðmaði Obama.

Trump hélt áfram að svara ræðu forsetans og í yfirlýsingu sagði hann demókrata hafa lýst ímynd af Bandaríkjunum sem er ekki til fyrir flesta landsmenn. Sagði hann 70% þjóðarinnar á því að Bandaríkin væru á rangri braut.

„Aldrei hefur flokkur verið eins ótengdur við það sem er að gerast í heiminum,“ skrifaði Trump.

Barack Obama á flokksþinginu í gærkvöldi.
Barack Obama á flokksþinginu í gærkvöldi. AFP
Clinton kom síðan á sviðið og faðmaði Obama.
Clinton kom síðan á sviðið og faðmaði Obama. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert