Hinsta flugleiðin fannst í flugherminum

MH370 var á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Hún …
MH370 var á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Hún fór hins vegar af leið og hvarf af ratsjám. AFP

Einhver hafði hnitað inn flugleið yfir sunnanvert Indlandshaf í flughermi flugstjóra malasísku farþegaþotunnar sem hvarf sporlaust í mars árið 2014. Flugherminn hafði flugstjórinn á heimili sínu. Leiðin er sú sama og þotan er talin hafa farið þar til hún endaði á botni Indlandshafs. Vélin átti hins vegar að vera á leið frá Kuala Lumpur til Peking þegar hún hvarf af ratsjám.

Þetta hafa yfirvöld nú staðfest. Ekki er hins vegar vitað hvort að flugstjórinn sjálfur bar ábyrgð á því að setja hnitin inn í flugherminn.

„Flughermir flugstjóra MH370 sýndi að einhver hafði sett inn í hann flugleið út í sunnanvert Indlandshafið,“ segir í skriflegu svari frá talsmanni sameiginlegrar flugrannsóknarmiðstöðvar, JACC, til CNN. Áður hefur því verið haldið fram að í flugherminum hefði mátt finna flugleið sem svipar að öllum líkindum til þeirrar sem varð sú síðasta sem farþegaþotan fór áður en hún steyptist niður í hafið.

Flugstjóri vélarinnar, Zaharie Ahmad Shahthe, hafði verið flugmaður hjá Malaysia Airlines frá árinu 1981 og flogið vélum af þessari gerð í meira en fimmtán ár, segir í frétt CNN.

Hann var því mjög reyndur flugmaður. Í flugstjórnarklefanum var einnig hinn 27 ára gamli Fariq Ab Hamid.

Rannsóknarteymið telur enn rétt að leita á hafsvæðinu í sunnanverðu Indlandshafi en svæðið er reiknað út frá öllum fyrirliggjandi gögnum, þó þau séu vissulega af skornum skammti. Teymið tekur inn í reikninginn þann mögulega að síðasta hluta leiðarinnar hafi enginn stýrt vélinni.

Teymið segir að gögnin sem fundust í flughermi flugstjórans gefi aðeins vísbendingu um að þessi hinsta för vélarinnar hafi verið skipulögð. Þau segja ekkert um hvað raunverulega gerðist um nóttina þegar vélin hvarf eða hvar flak hennar geti nú verið að finna.

Rannsókn á lífi og störfum flugstjórans hefur ekkert misjafnt leitt í ljós. Hann er sagður hafa verið við góða heilsu bæði andlega og líkamlega og verið með fjármál sín í góðu horfi.

Eiginkona flugstjórans hefur sagt að flughermirinn hafi ekki verið í lagi í að minnsta kosti ár áður en vélin hvarf.

Í síðustu viku kom fram í grein í New York Magazine að gögnin í flugherminum hefðu verið búin til aðeins vikum áður en flugstjórinn flaug sína hinstu för árið 2014. Þau hafi hins vegar aldrei borist rannsóknarteyminu í Peking.

239 fórust með vélinni er hún fórst. Flaks hennar er enn leitað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert